Dalabyggð hefur ráðið Guðnýju Ernu Bjarnadóttur sem lýðheilsufulltrúa sveitarfélagsins. Guðný Erna hefur undanfarin fimm ár búið og starfað í Noregi, þar sem hún vann við neyðarvistun fyrir ungmenni og neyðarúrræði fyrir fólk með fíknivanda og geðsjúkdóma. Hún hefur einnig starfað sem íþróttafræðingur á Heilsustofnun í Hveragerði og sem sundþjálfari.
Guðný Erna er með B.Sc. gráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í lýðheilsuvísindum frá Universitetet i Agder í Noregi. Hún hefur ástríðu fyrir lýðheilsu og segist hlakka til að vinna að því að efla heilsu og vellíðan íbúa sveitarfélagsins.
„Ég hlakka til að kynnast fólkinu í Dalabyggð og leggja mitt af mörkum til að efla heilsu og forvarnir í samfélaginu,“ segir Guðný Erna.
Starf Lýðheilsufulltrúa Dalabyggðar var auglýst með umsóknarfrest til 23. september 2024. Umsækjendur voru 9 talsins og er öllum umsækjendum þakkað fyrir umsóknir og samskipti í ráðningarferli.
Í auglýsingunni var leitað eftir öflugum og drífandi einstakling sem sýnir metnað og frumkvæði í starfi til að stýra afar fjölbreyttum og gefandi verkefnum í þágu samfélagsins í Dalabyggð. Æskilegt væri að viðkomandi væri með háskólamenntun sem nýttist í starfi og einnig var þess getið að kostur væri ef viðkomandi hefði reynslu af íþrótta- og tómstundastarfi.
Niðurstaða ráðningarferlis var að ráða Guðnýju til starfa. Við bjóðum hana velkomna og hlökkum til samstarfsins en Guðný mun hefja störf sín hjá Dalabyggð á nýju ári.