Íbúakönnun landshlutanna: Taktu þátt, hafðu hátt og sýndu mátt

DalabyggðFréttir

Fyrir rúmum þremur vikum fór Íbúakönnun landshlutanna af stað á öllu landinu. Könnunin er lögð fyrir íbúa allra landshluta á nokkra ára fresti. Sem fyrr er lögð áhersla á að spyrja þátttakendur aðallega um mat þeirra á búsetuskilyrðum, almenna velferð, stöðu þeirra á vinnumarkaði og hver framtíðaráform þeirra séu um búsetu. Gögn þessarar könnunar hafa nú þegar gefið þeim sem vinna að byggðaþróun og á sveitarstjórnarstiginu mikilvægar upplýsingar um raunverulega stöðu í hinum ýmsu byggðum um land allt eins og sjá má t.d. á heimasíðu Byggðastofnunar en þar má sjá niðurstöður síðustu könnunar frá 2020 (Smellið hér).

Þetta er ekki sama könnun sem gekk í Dölunum fyrr í haust en þar var spurt út í aðra þætti. Sú könnun var hluti af verkefninu Dalabyggð í sókn, þar sem unnið er að því að efla og styrkja ímynd Dalabyggðar út á við. Kynning á niðurstöðum þeirrar könnunar verður haldin 5. desember n.k. í Nýsköpunarsetrinu.

Mikilvægt er að sem flestir svari einnig íbúakönnun landshlutanna sem nú er opin, svo hægt sé að meta þróun á milli kannanna á ýmsum sviðum. Ef þú hefur fengið boð um að taka þátt í tölvupósti frá Vífli Karlssyni hjá SSV skorum við á þig að svara sem fyrst, þar inni er hlekkur sem leiðir þig inn á könnunina. Aðeins tekur 10-12 mínútur að svara henni allri. Afstaða þín skiptir miklu máli.

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni landshlutasamtaka á landsbyggðinni og Byggðastofnunar og hefur verið í gangi síðan árið 2004. Síðan þá hefur hún verið framkvæmd á þriggja ára fresti og er ætlunin að halda því áfram til þess að afla gagna um stöðu byggðanna á landinu öllu í þeirri viðleitni að bæta lífs- og búsetuskilyrði hérlendis.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei