Íbúaþing

DalabyggðFréttir

Atvinnumál og auðlindir svæðisins voru títt nefnd í umræðum og skilaboðum þátttakenda á íbúaþingi sem sveitarstjórn Dalabyggðar bauð til laugardaginn 15. janúar sl. í Dalabúð. Þinggestir ræddu það sem helst þyrfti að standa vörð um en einnig var tekist á við það hvar ætti að sækja fram og þá hvernig, af hálfu sveitarstjórnar en einnig íbúanna og samfélagsins í heild.
Að mati þátttakenda er brýnt að standa vörð um þjónustu og störf í héraðinu. Það er mikið hagsmunamál að opinber þjónusta, eins og t.d. löggæsla, hverfi ekki úr byggðarlaginu. Talað var um að hvert starf skipti máli því að baki því sé heil fjölskylda.
Íbúar ættu líka að nýta sér þjónustu og vörur úr heimabyggð, þar sem slíkt er í boði. Tækifæri til atvinnusköpunar voru rædd í víðu samhengi og vildu þátttakendur í því skyni horfa til auðlinda og sérstöðu héraðsins. Gera ætti sem mest úr því sem samfélagið býr yfir, nýta eignir sem fyrir eru og gefa þeim nýtt hlutverk – m.a. var rætt um gamla sláturhúsið í því sambandi. Sagan er óþrjótandi auðlind og tækifæri felast einnig í staðsetningu Dalabyggðar sem skilgreind var sem ,,Vegamót í vestri“. Þátttakendur töldu ýmis tækifæri ónýtt og ókönnuð í landbúnaði, s.s. ræktun ýmiss konar, en einnig í ferðaþjónustu. Bæta þyrfti aðstöðu fyrir ferðamenn, sem myndu þá frekar kjósa að eiga dvöl í Dalabyggð.
Húsnæðismálin fengu töluverða umræðu, en í Dalabyggð hefur um nokkurt skeið verið viðvarandi skortur á heppilegu íbúðarhúsnæði. Margir töldu að byggja ætti hentugar íbúðir með þjónustu fyrir eldri íbúana, því þá myndi losna um húsnæði sem hentaði betur stærri fjölskyldum.
Fjölmargar og skemmtilegar hugmyndir komu fram á íbúaþinginu. Mikill vilji var til að auka samstöðu og efla samfélagið innan frá – ,,leggjum niður hrepparíginn“ var haft á orði. Þátttakendur töldu að miklu skipti að íbúar væru virkir og nauðsynlegt væri að miðla og koma góðum hugmyndum á framfæri. „Skemmtum okkur meira saman“ var ein ábendingin.
Íbúaþingið er liður í vinnu sveitarstjórnar sem vill skerpa á áherslum sínum og móta stefnuskrá fyrir kjörtímabilið. Eins og kunnugt er var sveitarstjórn Dalabyggðar kosin í óbundnum kosningum sl. vor. Eins og ráða má af fyrirkomulagi við slíkar kosningar voru ekki í kjöri framboðslistar með fyrirfram mótaðar stefnuskrár og enginn samstarfssáttmáli er í gildi um meirihlutasamstarf eins og annars staðar tíðkast. Það er því hlutverk einstaklinganna sem kjörnir eru í sveitarstjórn að móta stefnu sveitarstjórnar og forgangsraða viðfangsefnunum. Við ákvarðanir og daglega stjórnun er æskilegt að sveitarstjórn geti stuðst við skýra stefnu sem undirstrikar sameiginlega sýn hinna kjörnu fulltrúa, studda með skilaboðum íbúa.
Á milli 45 og 50 manns tóku þátt í umræðum á íbúaþinginu. Með fundinum var skapaður vettvangur fyrir íbúa til að koma á framfæri hugmyndum sínum og sjónarmiðum um mikilvægustu viðfangsefni samfélagsins. Fundarformið var valið með það fyrir augum að sem flest sjónarmið kæmu fram og að það ýtti undir hlustun og skoðanaskipti þátttakenda. Boðið var upp á kaffiveitingar og léttan hádegisverð.
Umsjón með íbúafundinum var í höndum ráðgjafarfyrirtækisins Alta í Reykjavík og Grundarfirði og mun Alta jafnframt annast frekari úrvinnslu úr skilaboðum fundarins.
Upplýsingar um efni og niðurstöður fundarins birtast innan fárra daga á sérstökum vef, dalabyggd.alta.is sem er opinn öllum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei