Ímynd Dalanna – hvað einkennir samfélagið og svæðið?

DalabyggðFréttir

Í gær, miðvikudaginn 16. maí var haldinn opinn fundur vegna verkefnisins Dalabyggð í sókn. Verkefnið er styrkt af Byggðaráætlun og er markmiðið með því að efla ímynd Dalanna út á við og þannig hvetja fólk bæði til að heimsækja svæðið og setjast hér að.

Á fundinum fór Ingvar Örn Ingvarsson frá ráðgjafafyrirtækinu Cohn&Wolfe yfir verkefnið og kallað var eftir hugmyndum fundargesta sem nýst gætu til að auka hughrif um Dalina. Útskýrt var að skapa þyrfti hugtak eða heildarhugmynd og hvernig slíkt gæti litið út.

Það komu margir frábærir punktar frá fundargestum og er hér stiklað á því helsta:

  • Hér er fordómaleysi og fyrst og fremst umburðarlyndi. Fólk er velkomið í Dalabyggð og vel er tekið á móti þeim sem hér vilja búa, aðfluttir geta orðið Dalamenn. Halda verður í samheldni samfélagsins áfram.
  • Listin í Dölunum ætti að vera fókus. Dalirnir hafa tengst handverki og listsköpun allt frá víkingaöldum. Þetta er skapandi samfélag og það er ekki síst því að þakka að hér hafa einstaklingar fengið að blómstra á eigin forsendum.
  • Hér er kyrrð og ró og það þarf að halda í það sérkenni, jafnvel þó hér byggist upp ferðaþjónusta. Hér er hæglætislíf, minni erill og minna stress og við ættum að bjóða fólki að koma að aftengja sig og slaka á.
  • Hér er fólk tengt náttúrunni, jarðtengt og tengt árstíðunum.
  • Dalirnir eru miðsvæðis, einnig sem búsetukostur og því fylgir að það eru tækifæri í allar áttir.

Nánari samantekt frá fundinum má nálgast hjá ritara, linda@ssv.is

Við þökkum þeim sem mættu kærlega fyrir þeirra þátttöku og góðar umræður.

Við vitum að nú standa margir í ströngu í hinum ýmsu vorverkum og bjóðum öllum sem vilja að senda hugleiðingar sínar. Athugið, verkefnið er á byrjunarstigi og við erum ekki að kalla eftir hugmyndum um aðgerðir, heldur erum við að reyna að fanga anda svæðisins, svo við getum lýst því sem best fyrir öðrum. Hugleiðingar um hvað einkennir Dalina, hvort sem er náttúru, samfélag eða svæðið í heild sinni eru því velkomnar.

Hefurðu einhverju við þetta að bæta sem við getum nýtt til að styrkja ímynd Dalanna?

Endilega sendu póst á Ingvar Örn Ingvarsson í gegnum netfangið: dalirnir@cohnwolfe.is

Ingvar verður í burtu næstu viku en skoðar athugasemdir þegar hann kemur tilbaka. Frestur til að senda inn athugasemdir er til 26. maí n.k.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei