Jólasýningar safnanna

SafnamálFréttir

Jólasýningar Byggðasafns Dalamanna, Héraðsbókasafns Dalasýslu og Héraðsskjalasafns Dalasýslu eru að birtast hver af annarri í stjórnsýsluhúsinu í Búðardal, enda er von á fyrsta jólasveininum í nótt.

Á bókasafninu eru til sýnis kökudiskar frá Hafursstöðum, Skarfsstöðum og Stóra-Vatnshorni. Diskarnir eru allir varðveittir á Byggðasafni Dalamanna.

Jólahald byggist hjá flestum á hefð og jólabakstur stór hluti hjá mörgum fjölskyldum. Í anddyri stjórnsýsluhússins er sýning tengd jólabakstri, helstu bökunarvörur, áhöld og uppskriftir sem þarf til baksturs. Flestir munanna eru varðveittir á Byggðasafni Dalamanna. Einnig er úrval af handskrifuðum uppskriftum úr fórum héraðsskjalasafnsins og uppskriftir fengnar að láni á sýninguna. Vel nýttar matreiðslubækur Ólafíu Bjargeyjar Ólafsdóttur á Breiðabólsstað eru til sýnis í glerskáp. Öllum er frjálst að bæta við handskrifuðum jólauppskriftum á sýningarvegginn á meðan rými finnst.

Fátt er jólalegra en bekrar að störfum í fjárhúsum. Fyrir þá sem vantar lesefni fyrir jólin, þá eru ennþá nokkur eintök af hrútaskránni að finna í anddyri stjórnsýsluhússins.

Í stigapalli á annarri hæð er skreytt jólatré Margrétar Þorleifsdóttur frá Hlíð í Hörðudal. Til að gæta þess voru fengnir að láni fimm vaskir björgunarsveitarmenn, en Björgunarsveitin Ósk verður með árlega fjáröflun um áramót.

Á skrifstofugangi hjá sýslumanni, lögreglu og héraðsskjalasafni er fylgst með ferðum jólasveinanna. Það er hverjir eru á sveimi á hverjum tíma og þannig að hægt sé að hafa uppi viðeigandi varúðarráðstafanir.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei