Kallað eftir áhugasömum – starfshópur um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis

DalabyggðFréttir

Í gærkvöldi, mánudaginn 13. febrúar, var haldinn opinn fundur í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar varðandi uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Búðardal. Það var atvinnumálanefnd Dalabyggðar sem stóð fyrir fundinum.

Garðar Freyr Vilhjálmsson, formaður nefndarinnar byrjaði á því að fara yfir tilgang fundarins, sem væri að kanna áhuga á og útfærslur af uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Búðardal. Að því loknu fór Ólafur Sveinson ráðgjafi nánar yfir mismunandi tegundir af slíku húsnæði og umsókn í svo kallaðan C.1. lið í Byggðaáætlun en Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) fengu úthlutað 5.000.000 kr.- í verkefnið Iðngarðar í Búðardal. Þá sagði Skúli Hreinn Guðbjörnsson, formaður byggðarráðs frá uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á Hvammstanga áður en opnað var fyrir umræður. Fundurinn var vel sóttur og þátttakendur ræddu ýmsa möguleika og útfærslur.

Á 230. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar var því vísað til atvinnumálanefndar að koma á fót starfshópi sem héldi utan um undirbúning á byggingu Iðngarða í Búðardal. Tilgangur fundarins var því bæði að kynna fyrrnefnt verkefni SSV og svo að koma á framfæri upplýsingum er varða skipun starfshópsins.

Hlutverk starfshópsins er m.a. að safna upplýsingum um mismunandi möguleika og framkvæmdir við uppbyggingu á atvinnuhúsnæði, fá fram mögulegan kostnað sem og skoða útfærslur á stuðningi við slíka uppbyggingu.
Þátttaka í starfshópnum er ekki bindandi, þ.e. með þátttöku í honum er ekki verið að binda neinar fjárhagslegar skuldbindingar.
Starfshópurinn vinnur í samráði við atvinnumálanefnd Dalabyggðar og í samstarfi við SSV vegna verkefnis þeirra.

Óskað er eftir því að áhugasamir aðilar um þátttöku í starfshópnum sendi tölvupóst á Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, verkefnastjóra á netfangið johanna@dalir.is eigi síðar en föstudaginn 24. febrúar n.k. Atvinnumálanefnd mun skipa í hópinn á fundi sínum, mánudaginn 27. febrúar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei