Kvennaverkfall 24. október 2023

DalabyggðFréttir

Í dag, 24. október 2023 leggja konur og kvár niður öll störf í heilan dag til að mótmæla vanmati á vinnuframlagi kvenna og kynbundnu ofbeldi.

Það er að ýmsu að huga í jafnréttisbaráttunni og sveitarfélög eru þar ekki undanskilin, við vinnum stöðugt að því að gera gott samfélag enn betra með jafnrétti að leiðarljósi.

Staðan hjá Dalabyggð:

  • Sveitarfélagið hlaut Jafnlaunavottun 2021.
  • Fyrr á þessu ári samþykkti sveitarstjórn nýja Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Dalabyggðar sem gildir til 2026.
  • 3 af 7 aðalmönnum í sveitarstjórn Dalabyggðar og 5 af 7 varamönnum eru konur.
  • 78% starfsfólks sveitarfélagsins eru konu, bara á Silfurtúni eru nær 94% starfsfólks konur.
  • í A-hluta nefndum Dalabyggðar (utan fjallskilanefnda) eru 15 karlar og 16 konur aðalmenn.

Gott fólk, þessu verkefni er engan veginn lokið og lýkur í raun aldrei og því höldum við áfram vakt okkar og vöku því öll mismunun, sama í hvaða formi hún er, er ólíðandi og við viljum ekki sætta okkur við.

Allt frá árinu 1976 hafa lög á Íslandi kveðið á um að greiða skuli körlum og konum jöfn laun fyrir sömu eða sambærileg störf og þótt dregið hafi úr launamun kynjanna síðustu áratugi er enn marktækur munur á launum karla og kvenna eins og fram kemur í launarannsóknum.

Rannsóknir sýna einnig að ábyrgð á heimili er víða kynjaskipt og hvílir mikið á hefðbundnum hugmyndum um kynhlutverk, þar sem karlar eru fyrirvinnur og konur vinna oft aðeins upp að því marki sem samræmist möguleikum þeirra til að sinna fjölskyldu og börnum.
Þriðja vaktin lendir oftast á konum með áþreifanlegum og alvarlegum afleiðingum, þ.e. öll ósýnileg, ólaunuð yfirumsjón og endalaus tilfinningaleg ábyrgð á heimilis- og umönnunarstörfum.

Öll eigum við rétt á því að starfsumhverfi okkar einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum og felur það m.a. í sér að njóta verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Slík hegðun er bæði lögbrot og siðferðilega ámælisverð. Það á við hvort heldur sem um er að ræða hegðun atvinnurekanda, samstarfsmanna eða einstaklinga sem starfsmaður þarf að hafa samskipti við vegna starfs síns.

Áfram við öll – gegn launamismun og kynbundnu ofbeldi!

Útsending frá Arnarhóli er sýnd í Dalabúð kl.14-15 í dag

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei