Ljósleiðaravæðing – Dalaveitur

DalabyggðFréttir

Nú styttist í að Dalaveitur ljúki ljósleiðaravæðingu í dreifbýli Dalabyggðar. Plæging ljósleiðarastrengs úr Saurbæ um Skarðsströnd í átt að Klofningi hófst í júlí og er verktakinn nú í grennd við Skarð. Plægt verður yfir á Fellsströnd í haust þar sem Stóra-Tunga er endastaður. Að því loknu verða tækin færð inn í Saurbæ til að plægja streng inn Gilsfjörð í Ólafsdal og Kleifa. Sami verktaki sér um plæginguna og áður, Lás ehf. og sækist verkið vel.

 

Tengingar sunnan Laxár voru kláraðar og virkjaðar um mitt sumar. Síðan þá hefur Telnet haldið áfram tengingum í brunnum til vesturs í Hvammssveit og á Fellsströnd. Á næstu dögum lýkur tengingu í brunnum á þessu svæði. Í samvinnu við Mílu verður ídráttur ljósleiðarastofns að símstöð í Búðardal.

 

Í september munu starfsmenn Telnets setja upp húskassa að Lyngbrekku/Staðarfelli. Notendur á því svæði munu fá póst með nánari upplýsingum um ferlið og hverju megi eiga von á. Stefnt er á að virkja ofangreindar tengingar í október og verður ljósleiðarakerfið sunnan Svínadals þá orðið fullklárað og virkjað.

Samhliða frágangi húskassa í september verður hafist handar við tengingar í Saurbæ, á Skarðsströnd og Fellsströnd. Sá hluti ljósleiðarakerfisins verður tengdur símstöð Mílu við Máskeldu. Ekki er enn ljóst hvenær gengið verður frá þeirri stöð eða settir upp húskassar á svæðinu. Verður það kynnt notendum á svæðinu þegar nær dregur.

 

Nánari upplýsingar veitir Kristján Ingi Arnarsson verkefnastjóri Dalaveitna, netfangið dalaveitur@dalir.is

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei