Nú hefur tekið gildi ný samþykkt um hunda- og kattahald og annað gæludýrahald í Dalabyggð og gjaldskrá þar að lútandi. Hér á eftir er stiklað á stóru varðandi innihald þeirra en við hvetjum íbúa til að lesa þær yfir.
Skyldur
Eigendum hunda og katta ber að skrá dýr sín hjá skrifstofu sveitarfélagsins og sjá til þess að umhirða þeirra sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og samþykkta sem um gæludýrahald kunna að gilda. Eigendum og umráðamönnum hunda, katta og annarra gæludýra ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að dýr þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu.
Eigendur hunda og katta skulu árlega greiða gjald fyrir hunda sína og ketti samkvæmt gjaldskrá nr. 1117/2025.
Eigendur hunda og katta skulu færa dýr sína árlega til ormahreinsunar hjá dýralækni. Sveitarfélagið upplýsir um hvenær árleg ormahreinsun fer fram, ormahreinsun er innifalin í skráningargjaldi. Ef eigandi dýrs getur af einhverjum ástæðum ekki mætt á tilsettum tíma skal hann afhenda sveitarfélaginu staðfestingu frá dýralækni um að ormahreinsun hafi farið fram.
Hundar
Allir hundar í þéttbýli eru skráningarskyldir hjá sveitarfélaginu.
Hundar sem notaðir eru við búrekstur á lögbýlum eru undanþegnir skráningar- og árgjaldi, en skylt er að framvísa til sveitarfélagsins númeri örmerkingar svo og árlegu vottorði um ormahreinsun.
Kettir
Allir kettir í þéttbýli eru skráningarskyldir hjá sveitarfélaginu.
Kettir í dreifbýli eru undanþegnir skráningar- og árgjaldi, en skylt er að framvísa til sveitarfélagsins númeri örmerkingar svo og árlegu vottorði um ormahreinsun.
Önnur gæludýr
Eigendum og umráðamönnum gæludýra annarra en hunda og katta er skylt að koma í veg fyrir að dýr þeirra sleppi úr haldi. Gerist það skal þegar gera ráðstafanir til að handsama dýrið.
Eigendur og umráðamenn gæludýra sem haldin eru utandyra, svo sem nagdýra, skulu sjá til þess að dýrin valdi ekki nágrönnum ama svo sem með hávaða, skemmdum eða óhreinindum. Skulu þeir tryggja að dýrin geti ekki nagað sig út úr búri eða aðhaldi.
Kanínur skulu einstaklingsmerktar skv. 1. mgr. 22. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013.
Gjöld
Eigendur hunda og katta og annarra gæludýra eru ábyrgir fyrir öllum kostnaði sem hlýst af brotum gegn samþykkt nr. 1040/2025.
Eigendur minka-, blindra-, hjálpar-, björgunar- og löggæsluhunda eiga rétt á niðurfellingu gjalda enda leggi þeir fram skilríki um að hundarnir séu notaðir í þeim tilgangi. Þeir eru hins vegar skráningarskyldir og þarf að greiða af þeim skráningargjald.
Eigandi hunds sem sótt hefur hlýðninámskeið hjá viðurkenndum hundaþjálfara getur sótt um 25% afslátt af árgjaldi gegn framvísun gagna um námið.
Eigandi kattar getur sótt um 25% afslátt af árgjaldi gegn staðfestingu þess að kötturinn hafi farið í ófrjósemisaðgerð.
Annað
Dalabyggð er heimilt að afturkalla skráningu hunda eða katta ef vanhöld verða á ormahreinsun, greiðslu skráningar- eða árgjalda sem og ef eigandi hunds eða kattar hefur brotið gegn samþykkt þessari.
Á næstu dögum verður birtur listi yfir skráða hunda og ketti á vefsíðu Dalabyggðar, þar sem fram kemur leyfisnúmer, heimilisfang og nafn.
Við hvetjum gæludýraeigendur í Dalabyggð til að kynna sér innihald samþykktar og gjaldskrár hér:
SAMÞYKKT um hunda- og kattahald og annað gæludýrahald í Dalabyggð
GJALDSKRÁ fyrir hunda- og kattahald og annað gæludýrahald í Dalabyggð.
