Ómetanleg þátttaka íbúa

DalabyggðFréttir

Síðast liðin 2 ár hefur verið í gangi verkefnið „Dalabyggð í sókn – ímynd, aðdráttarafl og staðarandi“ sem hlaut styrk af C.1. lið Byggðaáætlunar.

Ástæða verkefnisins var vinna með ímynd Dalanna, hún var ekki slæm en hún var heldur ekki sterk.
Þannig hefur verkefnið snúið að efnissköpun til miðlunar, fyrir ferðamenn, fyrir núverandi og tilvonandi íbúa, sem og mögulega fjárfesta eða aðila sem vilja nýta tækifærin í Dölum til að byggja upp.

Verkefninu var m.a. ætla að útbúa verkfærakistu fyrir markaðssetningu Dalanna, efla aðdráttaraf og styrkja staðaranda. Sú verkfærakista var kynnt í nóvember 2024: Verkfærakista – Við yrkjum lífsgæði í Dölunum

Þá hefur einnig verið búin til margmiðlunarsíða fyrir erlenda ferðamenn sem vilja kynna sér það sem Dalirnir hafa upp á að bjóða t.d. í gistingu, mat og afþreyingu: Destination Dalir – Visit Dalir

Fyrr í vikunni var svo fyrirtækið Broadstone sem útbjó fyrrnefnda síðu, á ferð um Dalina við að taka upp efni sem miðar meira að samfélaginu og uppbyggingu í héraði.
Afrakstur verða myndbönd sem gefa innsýn í atvinnulíf, menningu og afþreyingu íbúa og loks tækifæri á láði og á legi í Dölum. 

Broadstone voru í Dölunum í 3 daga þar sem þau fengu að mynda iðnaðarmenn, skrifstofufólk, hársnyrtir, prest, heilbrigðisstarfsfólk, kennara og fleiri við störf sín. 
Eins mynduðu þau fjölbreytt klúbba- og félagsstarf og margvíslega afþreyingu sem íbúar á svæðinu sinna utan vinnu. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af René frá Broadstone að störfum.

Telst okkur til að ríflega 100 íbúar, á öllum aldri, hafi komið að verkefninu, ýmist fyrir framan eða aftan myndavélina. Slík þátttaka er ómetanleg og gerir okkur kleift að gefa innsýn í okkar góða samfélag. Auðvitað hefðum við viljað ná að gera meira en ef allt gengur eftir verður þetta ekki síðasta heimsókn Broadstone í Dalina – enda er af nægu að taka.

Við hlökkum til að sýna ykkur afraksturinn þegar allt efnið hefur skilað sér í hús. Takk enn og aftur!

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei