Sveitarstjórnir Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar sammæltust um það eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 að hittast á sameiginlegum fundi til að ræða sameiginleg málefni, frekara samstarf og sameiningarmál þessara sveitarfélaga.
Sá fundur var haldinn 31. mars 2015 í Tjarnarlundi. Fulltrúum frá Árneshreppi og Kaldrananeshreppi var einnig boðið að taka þátt í samtalinu. Til fundar mættu 19 fulltrúar, þó enginn frá Árneshreppi vegna ófærðar.
Á fundinum voru ræddar margar hliðar sameiningar og samstarfs sveitarfélaganna undir yfirskriftinni „Að búa í haginn – Samstarf til sóknar“.
Farið var yfir áskoranir og tækifæri í samfélögunum á svæðinu, hvort sveitarfélögin teldu sig geta áorkað meiru með því að taka sameiginlega á viðfangsefnum sínum, hver helstu verkefnin væru sem þannig þyrfti að vinna og þá á hvaða grunni, og hver ávinningurinn væri af því að vinna þau í sameiningu, fremur en hver fyrir sig.
Samhljómur var hjá fundarmönnum um að ávinningur af auknu samstarfi á svæðinu væri mikill, sama á hvaða formi það yrði. Hvað varðar stjórnsýslu, þjónustu sveitarfélaga og rekstur, þá felast kostir í einfaldara stjórnkerfi sveitarfélaganna og stofnana þeirra, þannig að ná megi fram aukinni hagræðingu og fjárhagslegri hagkvæmni.
Samhliða er verið að gera því skóna að með því að leggja saman þá sé hægt að bæta í þjónustuna, bæði með nýrri þjónustu sem ekki er til staðar nú og eins þannig að störfin „komi heim“ sem annars eru aðkeypt. Þannig megi efla samfélagið og þjónustu við íbúana í þeim málaflokkum sem tilheyra sveitarfélögunum.
Hvað varðar ólögbundin verkefni sveitarfélaga og umræðu um atvinnumálin almennt, þá kom einnig fram trú á að kostir og tækifæri skapist með því að horfa á svæðið sem heild, kynna það þannig og gæta hagsmuna þess í sameiningu. Ef tekst að efla þjónustu sveitarfélaganna og auka samheldni og samvinnu á svæðinu, þá geti það leitt af sér ný störf og aukna þörf á frekari (sérfræði)þjónustu í einkageiranum.
Lagðir eru fram þrír valkostir að næstu skrefum, en fjórði kosturinn er síðan sambland valkosta.
a. Að hefja formlegan undirbúning sameiningar sveitarfélaganna.
b. Að velja og vinna að völdum samstarfsverkefnum eða málaflokkum, s.s. í stjórnsýslu og/eða þjónustu sveitarfélaganna, án sameiningar.
c. Að hefja vinnu við svæðisskipulag; velja þróunarþætti sem sveitarfélögin sammælast um að móta sameiginlega sýn á og vinna til framtíðar.
Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 21. apríl var samþykkt að kynna samantekt Alta á heimasíðu sveitarfélagsins og gefa íbúum kost á að lýsa skoðunum sínum. Málið verði tekið aftur til umræðu á fundi sveitarstjórnar í maí og verða ábendingar sem fara eiga fyrir þann fund að hafa borist sveitarstjóra (sveitarstjori@dalir.is) skriflega fyrir 15. maí.