Föstudaginn 26. júlí sl. var undirritaður samningur á milli Dalabyggðar, Skógræktarfélags Dalasýslu og Skógræktarfélag Íslands um uppbyggingu í og við Brekkuskóg í Búðardal.
Markmið samningsins er að stuðla að landvernd og tryggja íbúum Dalabyggðar og gestum svæði til útivistar um ókomna framtíð. Um er að ræða svæði norðvestan við Búðardal, sem nú nefnist Brekkuskógur og var gróðursettur kringum 1990, upphaflega samkvæmt samningi milli Laxárdalshrepps og Skógræktarfélags Dalasýslu, en sá samningur er nú útrunninn.
Með það að leiðarljósi hafa aðilar samnings þessa ákveðið að stuðla að frekari uppbyggingu og aðstöðu fyrir almenning í Brekkuskógi og frekari ræktun svæðisins þar sem þess þarf með undir hatti Landgræðsluskóga. Horft verði til þess að a.m.k. hluti þeirra göngustíga sem lagðir verða í Brekkuskógi verði greiðfærir sem flestum, þ.m.t. einstaklingum sem búa á Silfurtúni í Búðardal og tengist einnig öðrum göngustígum í næsta nágrenni.
Á mynd hér með sem tekin var í kjölfar undirritunar samningsins á umræddu svæði eru, frá vinstri, Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélag Íslands, Jónatan Garðarsson formaður stjórnar Skógræktarfélags Íslands, Sigurbjörn Einarsson stjórn Skógræktarfélags Dalasýslu, Sigurður Ólafsson stjórn Skógræktarfélags Dalasýslu, Guðlaug Kristinsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar, Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri og Jakob K. Kristjánsson formaður Skógræktarfélags Dalasýslu.