Skógarstrandarvegur

DalabyggðFréttir

Á 140. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 20. september 2016 var rætt um ástand Skógarstrandarvegar, stofnveg 54.
Snæfellsnesvegur (54) milli Hörðudals og Stykkishólmsvegar er um 60 km langur malarvegur og er hann hluti af stofnvegakerfi landsins enda tengir hann saman Snæfellsnes og Dali og myndar þar með (ferðamanna)leiðir til Norðurlands og Vestfjarða.
Samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar var sumardagsumferð um veginn árið 2015 allt að 344 bílar og er aukning umferðar allt að 160% frá árinu 2010. Vegurinn er einungis um 5 – 5,5 m breiður en ætti að vera að lágmarki 6,5 m. Á veginum eru 14 einbreiðar brýr, margar blindhæðir og krappar beygjur. Þó vegurinn sé heflaður verður hann mjög fljótt aftur grófur og holóttur þar sem lítið er eftir af yfirborðsefni í veginum.
Skv. upplýsingum frá lögreglu eru á tímabilinu 1. janúar – 15. september 2016 skráð 14 umferðaróhöpp á veginum og voru 21 einstaklingar fluttir með sjúkrabílum á heilbrigðisstofnanir. Í 12 af þessum 14 óhöppum áttu í hlut erlendir ferðamenn. Auk þessara tilvika hefur í 18 tilvikum þurft að sækja skemmda bíla með dráttarbílum.
Þá hefur Vegagerðin skráð að í 10 tilvikum hafi orðið skemmdir á umferðarskiltum og vegriðum og í 80 – 100 tilvikum hafi verið ekið á vegstikur. Í tölvupósti Vegamálastjóra til íbúa á Skógarströnd fyrr á árinu kemur fram að Vegagerðin hafi ekkert fjármagn í aðgerðir við veginn og endurbygging hans sé ekki inn á neinum áætlunum. Vegagerðin sé að reyna að koma einhverju fjármagni til endurbóta á næstu fjögurra ára áætlun (2019-2022) en það sé annarra að ákveða.
Sveitarstjórn Dalabyggðar krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn vakni af Þyrnirósarsvefni og setji verulega aukið fjármagn til samgöngumála þannig að íbúar landsins og gestir geti ferðast um landið með þokkalega öruggum hætti. Ekki ætti að þurfa að stofna til nýrra gjaldstofna þar sem álögur á eldsneyti og farartæki eru þegar skýjum ofar. Tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustunni eru umtalsverðar og fara hratt vaxandi og sjálfsögð krafa er að þær renni að hluta til uppbyggingar innviða. Sveitarstjórn Dalabyggðar krefst þess að endurbygging Snæfellsnesvegar um Skógarströnd verði sett á samgönguáætlun hið allra fyrsta og að eðlilegu viðhaldi verði sinnt þar til endurbygging hefst.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei