Það er ánægjulegt að segja frá því að það hafa rúmar 52 milljónir verið veittar til ýmissa framfaraverkefna í Dalabyggð á allra síðustu vikum.
- Níu verkefni fengu styrk úr Menningarmálaverkefnasjóði Dalabyggðar þann 15. janúar en til úthlutunar voru 1.000.000 kr.-
- Þann 24. janúar var úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Fengu 14 verkefni úr Dalabyggð styrki, samtals að upphæð 9.100.000 kr.-
- Þá var úthlutun úr DalaAuði þann 27. febrúar síðastliðinn þar sem 30 verkefni fengu styrki en að þessu sinni voru 19.250.000 kr.- til úthlutunar úr þeim sjóði.
- 11.mars var síðan úthlutað úr Byggðaáætlun, liði C.1 til sóknaráætlanasvæða. Geta landshlutasamtökin sótt um í þann pott fyrir ýmis þróunarverkefni á landsbyggðinni. Tvö verkefni í þágu Dalabyggðar sem eru á forræði SSV fengu þar styrk, samtals að upphæð 23.500.000 kr.-
Verkefnin snúa að atvinnumálum, nýsköpun, uppbyggingu, rannsóknum og menningu. Þetta er góð innspýting fyrir samfélagið okkar en reynsla okkar síðustu ár er sú að gróska sem þessi skilar sér í aukinni atvinnu, þjónustu, afþreyingu og vöruframboði innan sveitarfélagsins.
Sem dæmi þá snýr annað þeirra verkefna sem SSV fékk styrk fyrir nú á dögunum að því að efla Nýsköpunarsetur Dalabyggðar enn frekar. Í setrinu hefur sl. mánuði verið haldið úti ýmiskonar starfi sem miðar allt að því að efla íbúa og samfélagið í heild. Má þar nefna námskeið, fræðsluerindi, kynningar og kaffispjall um málefni líðandi stundar. Þess utan hefur setrið sinnt hlutverki prófamiðstöðvar í Dölunum fyrir fjarnema og verið samvinnurými fyrir þá sem stunda störf án staðsetningar eða sinna viðveru í héraðinu.
Árangur af þessu er meðal annars sá að íbúar hafa betra aðgengi að sí- og endurmenntun, möguleikar til bæði menntunar og atvinnu hafa aukist ásamt því að Dalabyggð skoraði hæst á landsvísu hvað íbúalýðræði varðar en þar má nefna samráðsfundi og kaffispjall í setrinu sem áhrifaþætti.
Það verður spennandi að fylgjast með öllum þessum verkefnum næsta árið og hvetjum við íbúa til að sækja viðburði, bæði kynningar og annað, sem tengjast þessum verkefnum.
Við lofum líka áframhaldandi viðburðardagskrá í Nýsköpunarsetrinu enda hafa íbúar sótt fræðslu og kynningar vel.
Hér fyrir neðan má sjá samantekt yfir öll verkefnin sem hlutu styrk:
- Menningarmálaverkefnasjóður
- Uppbyggingarsjóður Vesturlands
- Frumkvæðissjóður DalaAuðs
- C.1 – Sóknaráætlanasvæði
– Linda Guðmundsdóttir, verkefnastjóri DalaAuðs & Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Dalabyggð.