Sturluhátíð 29. júlí 2018

DalabyggðFréttir

Sturla Þórðarson sagnaritarinn mikli var fæddur 29. júlí 1214. Sunnudaginn 29. júlí 2018 verður haldin Sturluhátíð í Tjarnarlundi í Dalabyggð. Samkoman hefst klukkan 14.

Að þessu sinni er atburðurinn tengdur fullveldinu. Það er vegna þess að fornritin íslensku voru í senn menningararfur og undirstaða sjálfstæðisbaráttunnar, baráttunnar fyrir fullveldi þjóðarinnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ávarp við upphaf Sturluhátíðarinnar, en Ragnheiður Pálsdóttir varaoddviti Dalabyggðar býður gesti velkomna. Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Sturlunefndar, setur Sturluhátíðina. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er heiðursgestur hátíðarinnar.

Á hátíðinni verður sagt frá stórmerkilegri fornminjaskráningu á Staðarhóli í Saurbæ þar sem Sturla bjó lengst. Það er Guðrún Alda Gísladóttir, fornleifafræðingur, sem segir frá fornminjaskráningunni sem fór fram í fyrra. Þá mun Ari S. Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar segja frá þátttöku fyrirtækisins í því að setja upp söguskilti í Dalabyggð á „gullna söguhringnum“. Guðrún Ása Grímsdóttir fræðimaður á Árnastofnun segir frá útgáfu Hins íslenska fornritafélags á Sturlungu sem lengi hefur verið á döfinni. Um tónlist sjá þau Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfússon Birgisson. Að lokinni samkomunni mun Svavar Gestsson segja frá áformum um minningarreit um Sturlu Þórðarson að Staðarhóli.

Samkoman er öllum opin.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei