Úrbætur á hitaveitukerfi og fjármagn til vegaframkvæmda

DalabyggðFréttir

Fulltrúar Rarik mættu á fund byggðarráðs í síðustu viku þar sem kynnt voru áform fyrirtækisins um endurnýjun hitaveitulagna í Búðardal. Þörf er á endurnýjun dreifikerfi hitaveitunnar og er gert ráð fyrir að kostnaður við verkið sé á bilinu 300-400 milljónir muni taka um 3 til 4 ár, að óbreyttu.
Samhliða þessu mun Rarik m.a. að endurskoða gildandi gjaldskrá og vera í samskiptum við Dalabyggð varðandi sérleyfi sem rennur út 2028.

Á sama fundi var lögð fram bókun byggðarráðs varðandi stöðu vegamála í Dalabyggð. Þar voru ítrekaðar enn og aftur athugasemdir og ábendingar sveitarfélagsins vegna stöðu vega í Dölum. Vísað var til fréttaflutnings af viðbótarfjármagni sem þó lægi ekki fyrir opinberlega. Það væri hvimleitt að horfa á besta framkvæmdatímann í sumar fljúga hjá þegar ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt. Um sé að ræða óviðunandi ástand sem skapar hættu.

Um helgina barst Vegagerðinni svo tilkynning um viðbótarfjármagn á árinu 2025.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru verkefnin sem stefnt er að komi til framkvæmda á árinu vegna þessa eftirfarandi:

  • Malbik verður lagt á við innkomu í Búðardal beggja vegna, þ.e. út fyrir ristarhlið að vestaverðu og að hesthúsa-afleggjara sunnan megin.
  • Um 1 km. við Haukadalsá að Brautarholti verður styrktur og lagt á bundið slitlag.
  • Kafli á Svínadal verður styrktur og lagt á bundið slitlag.
  • Um 2 km. verða malbikaðir á Bröttubrekku.
  • Einnig verður hluti fjármagns nýttur til að undirbúa og hanna styrkingu, breikkun og lagningu bundins slitlags á vegkafla á milli Erpsstaða og Haukadalsár og er stefnt að framkvæmdum á þeim kafla sumarið 2026.

Áður var búið að ákveða að lagfærður verður um 1 km. kafli við Gröf sumarið 2025. Það er ánægjulegt að sjá ofantalin verkefni séu að verða að veruleika, enda ástandið orðið óviðunandi með öllu eins og reyndar víðar í vegakerfi okkar í Dölum.

Því má reikna með framkvæmdum á svæðinu í sumar, allt frá Bröttubrekku og norður fyrir Búðardal. Viljum við biðja íbúa og aðra velunnara sem eiga leið um héraðið að sýna þolinmæði og tillitssemi gagnvart vegavinnunni og umferðartöfum sem geta skapast. 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei