Þriðjudaginn 26. ágúst sl. var haldin vinnustofa á Borðeyri í tengslum við sameiningarviðræður Dalabyggðar og Húnaþings vestra. Þátttakendur voru lykilstarfsmenn sveitarfélaganna á þeim sviðum sem fjallað var um, kjörnir fulltrúar og fulltrúar úr fastanefndum.
Markmiðið með vinnustofunni var að leiða saman þá sem best þekkja til mála til að móta framtíðarsýn og draga fram kosti og ókosti sameiningar fyrir íbúana. Um 45 þátttakendur mættu til leiks og var skipt upp í fjóra starfshópa sem fjölluðu hver um sitt málasvið. Málasviðin voru eftirfarandi:
- Rekstur
- Velferðarmál
- Fræðslumál, íþróttir, tómstundir og lýðheilsa
- Byggðaþróun
Líflegar umræður sköpuðust í öllum starfshópum og vel fór á með fulltrúum sveitarfélaganna tveggja. Ráðgjafar frá KPMG, sem vinna með samstarfsnefnd um sameiningu, leiddu vinnuna og kvenfélagið Iðunn sá til þess að allir fengu staðgóða magafylli. Afurðir vinnustofunnar eru minnisblöð sem samstarfsnefndin mun styðjast við í mótun álits síns og framtíðarsýnar fyrir sameinað sveitarfélag. Þátttakendur voru jákvæðir gagnvart sameiningu og niðurstaða allra starfshópa var að sameining væri góður kostur sem hefði jákvæð áhrif fyrir íbúana.
Minnisblöðin verða gerð aðgengileg á upplýsingasíðu um sameiningarviðræðurnar sem mun birtast á næstu dögum á slóðinni https://dalhun.is.

default