Sveitarfélagið og samfélagið hér í Dölum stendur nú frammi fyrir mikilvægu samtali um framtíð sína eitt og sér eða með möguleika á sameiningu við Húnaþing vestra. Slíkt samtal snertir alla íbúa og framtíð samfélags okkar – þjónustu, rekstur, atvinnu, menningu og daglegt líf til framtíðar.
Líkt og tilkynnt hefur verið þá er búið að ákveða að kosning um mögulega sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra muni fara fram og standa frá 28. nóvember til og með 13. desember nk. Það er því mikilvægt að fá góða þátttöku bæði í aðdraganda kosninga og í kosningunum sjálfum til að vilji allra íbúa sé skýr, í hvora átt sem er. Það er mikilvægt að átta sig á að það er í raun engin lágmarksþátttaka sem þarf til þess að kosning verði bindandi og því vil ég benda á aftur mikilvægi virkrar þátttöku íbúa á öllum aldri – málefnið varðar framtíð samfélagsins alls.
Til að taka upplýsta ákvörðun er mikilvægt að sem flestir íbúar taki sem virkastan þátt í umræðunni, spyrji spurninga, deili sjónarmiðum og hlusti á raddir annarra. Þetta er tækifæri til að móta sameiginlega sýn á hvernig við viljum sjá Dalabyggð þróast næstu árin og áratugina.
Ég vil að þessu sögðu hvetja alla íbúa, unga sem aldna, til að mæta á íbúafundi sem haldnir verða í næstu viku:
- Dalabúð í Búðardal – þriðjudaginn 14. október kl. 17:00
- Félagsheimilinu á Hvammstanga – miðvikudaginn 15. október kl. 17:00
Á fundunum verða kynnt helstu atriði í sameiningarviðræðum sveitarfélaganna, fjallað um ávinning og áskoranir, og ekki síst gefið tækifæri til umræðu og spurninga.
Virk þátttaka íbúa skiptir öllu máli. Við eigum þetta samfélag saman – og framtíð þess mótum við með opnu samtali, virðingu og ábyrgð.
Virðingarfyllst,
Björn Bjarki Þorsteinsson
Sveitarstjóri Dalabyggðar