Mánudaginn 4. nóvember sl. voru haldnar tvær kynningar í Stjórnsýsluhúsinu í Búðardal.
Annars vegar var um að ræða kynningu á verkfærakistu í markaðssetningu, sem sveitarfélagið og fyrirtæki – og í raun allir áhugasamir geta nýtt sér. Verkfærakistan er aðallega hugsuð til að miðla heilstæðri sýn á sveitarfélagið út á við, þar sem slagorðið er „Við yrkjum lífsgæði í Dölunum“.
Ingvar Örn Ingvarsson, frá ráðgjafafyrirtækinu Cohn&Wolfe kom og kynnti verkfærakistuna en verkefnið er samstarfsverkefni Dalabyggðar og SSV. Líkt og Ingvar benti á þá er margt jákvætt sem hægt er að miðla um Dalina, hér er hrein náttúra, gott samfélag og góð lífsgæði. Þetta eru meðal þeirra þátta sem við getum sagt frá þegar við segjum frá Dölunum.
Verkfærakistuna má finna hér: Verkfærakista – Við yrkjum lífsgæði í Dölunum
Í tengslum við verkefnið var einnig útbúið kynningarmyndband sem margmiðlunarfyrirtækið Broadstone útbjó, byggt á ofangreindri verkfærakistu og má sjá hér:
Broadstone hélt svo seinni kynninguna og sýndi þar afrakstur vinnu sem sveitarfélagið og ferðaþjónar í Dölunum tóku þátt í á árinu. Tekið var upp kynningarefni í Dölunum í febrúar og júlí og er búið að búa til margmiðlunarsíðu úr því þar sem gisting, afþreying og fleira áhugavert í Dölunum er kynnt til leiks. Það er heimamaðurinn, bóndinn og félagsmálafrömuðurinn Steinþór Logi Arnarsson sem er andlit Dalanna í þessu markaðsefni sem sérsniðið er að erlendum markaði, ferðaskrifstofum og þeim sem eru að skipuleggja ferðalag í Dalina.
Hér má skoða margmiðlunarsíðuna: Destination Dalir – Visit Dalir