Í sveitum landsins er fjöldi eyðibýla og yfirgefinna íbúðarhúsa sem mörg hver eru vel byggð og geyma merka sögu.
Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa, m.a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu.
Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Austur-Skaftafellssýslu, Vestur-Skaftafellssýslu oG Rangárvallasýslu. Afraksturinn var heildstætt yfirlit um 103 yfirgefin hús sem kom út í veglegu riti.
Í sumar mun rannsóknin ná til tveggja ólíkra landsvæða, annars vegar Norðurlands eystra og hins vegar Vesturlands. Þá munu átta háskólanemar úr verkfræði, arkitektúr, jarðfræði og fornleifafræði vinna við rannsóknina með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna.
Hluti rannsóknarhópsins verður á ferð um sveitir Dalabyggðar vikuna 25.-29. júní n.k. Þar sem til stendur að skrásetja á komandi árum allt landið á þennan máta mun skapast verðmætur þekkingargrunnur um líf Íslendinga fyrr á tímum.
Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð víðum skilningi. Það er látið ná yfir yfirgefin hús í sveitum og smærri þéttbýlisstöðum, jafnvel þótt þau standi þar sem enn er önnur byggð til staðar, þ.e. ekki eingöngu á eyðijörðum. Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum. Þau geta verið merkar menningarminjar og mikilvægrar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil.
Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin yfirgefin hús á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra og/eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu.
Verkefnið hefur á nýliðnum vetri verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra.
Rannsóknum sumarsins lýkur með kynningu á verkefninu og bókaútgáfu á haustmánuðum. Með tíð og tíma mun ritröðin Eyðibýli á Íslandi ná yfir öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins.
Rannsóknarhópur sumarsins er fullur tilhlökkunar fyrir komandi könnunarleiðöngrum og sendir landsmönnum fyrirfram sínar bestu kveðjur. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á facebook: www.facebook.com/Eydibyli
Einnig má hafa samband við rannsakendur í gegnum netfangið eydibyli@gmail.com
Háskólanemarnir átta sem vinna að rannsókn á eyðibýlum á Vesturlandi og Norðausturlandi í sumar eru Hildur Guðmundsdóttir, Axel Kaaber, Birkir Ingibjartsson, Steinunn Eik Egilsdóttir, Þuríður Elísa Harðardóttir, Bergþóra Góa Kvaran, Olga Árnadóttir og Sólveig Guðmundsdóttir Beck.