Íslenska Gámafélagið fór sinn fyrsta hring um Dalina á miðvikudaginn síðasta, 13. janúar. Tunnur í Búðardal og dreifbýli vestan við voru tæmdar í þetta skiptið. Næsta hirðing skv. sorphirðudagatali er 27. janúar og verður þá tæmt aftur í Búðardal og farið í dreifbýli sunnan þorpsins. Þannig verður gangurinn fram í byrjun maí, hirt í Búðardal á tveggja vikna fresti (1 tunna) og dreifbýli til skiptis á fjögurra vikna fresti (2 tunnur). Ferðin sóttist seint þennan fyrsta dag enda starfsmenn að læra á svæðið, finna tunnur o.fl. auk þess að mikil hálka var á svæðinu.
Meðan nýir aðilar eru að læra á svæðið og nýtt fyrirkomulag í dreifbýli er að festa sig í sessi geta frávik orðið á framkvæmdinni þar sem að tunnur geta t.d. gleymst eða ekki fundist. Til þess að geta leyst fjótt og vel úr þannig atvikum er mikilvægt að tilkynningar um þær berist eftir réttum leiðum til þeirra sem hafa umsjón með þjónustunni. Hægt er að koma ábendingum á framfæri með því að hringja á skrifstofu sveitarfélagsins 430-4700, senda póst á kristjan@dalir.is eða senda skilaboð á facebook-síðu Dalabyggðar.