Að gefnu tilefni vill Dalabyggð ítreka leiðbeiningar varðandi notkun grenndarstöðva í sveitarfélaginu.
Í Dalabyggð hafa eigendur frístundahúsa/sumarhúsa aðgengi að grenndarstöðvum sem eingöngu eru ætlaðar fyrir heimilissorp.
Á hverjum stað er að finna kör fyrir almennt sorp (óendurvinnanlegt), endurvinnanlegt sorp og lífrænan úrgang, sbr. flokkun frá heimilum.
Eins og með heimili í Dalabyggð ber eigendum frístundahúsa/sumarhúsa að skila öðru sorpi og úrgangi sem ekki á heima í þessum körum á endurvinnslustöðina að Vesturbraut 22 í Búðardal. Þetta á m.a. við um raftæki, málningu, rafgeyma, timbur, brotajárn, steypubrot og hjólbarða.
Opnunartími endurvinnslustöðvarinnar er á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 14:00 til 18:00 og á laugardögum frá kl. 10:00 til 14:00. Lúgur á endurvinnslustöðinni fyrir flokkað sorp eru aðgengilegar allan sólahringinn, alla daga vikunnar. Þar er hægt að skila af sér plasti, pappír og litlum málmhlutum ásamt batteríum og kertaafgöngum.
Upplýsingar um endurvinnslustöðina í Búðardal.
Allir eigendur fasteigna sem greiða sorphirðugjöld fá klippikort fyrir losun á endurvinnslustöðinni sem gildir í eitt ár. Ef kortið dugir ekki út árið má kaupa aukakort á gámastöðinni og sér skrifstofa sveitarfélagsins um að senda reikning vegna þeirra.
Séu ílát á grenndarstöðvum full er óskað eftir því að haft sé samband við skrifstofu Dalabyggðar í síma 430-4700 eða á dalir@dalir.is til að hægt sé að bregðast við.
Við biðjum notendur grenndarstöðva um að ganga þannig frá endurvinnanlegum úrgangi að ílátin nýtist að fullu s.s. taka umbúðir í sundur eða brjóta þær saman svo meira sorp komist fyrir.
Festingar eru á lokum og mikilvægt er að þeim sé lokað aftur eftir losun svo lokin fjúki ekki upp.
Upplýsingar um sorphirðu í Dalabyggð
Athugið að grenndarstöðvar í dreifbýli eru ekki fyrir heimili eða fyrirtæki.
Heimili í dreifbýli hafa: 240 ltr tunnu fyrir almennt sorp, 660 ltr kar fyrir endurvinnanlegt og 140 ltr tunnu fyrir lífrænan úrgang.
Heimili í þéttbýli hafa: 240 ltr tunnu fyrir almennt sorp, 240 ltr tunnu fyrir endurvinnanlegt og 140 ltr tunnu fyrir lífrænan úrgang.
Íbúar geta óskað eftir að fá fleiri sorpílát að heimilum sínum með því að senda póst á dalir@dalir.is eða hafa samband við skrifstofu í síma 430-4700. Íbúar greiða þá fyrir aukaílát, sorpílát fyrir almennan úrgang 27.895 kr. og fyrir sorpílát fyrir endurvinnsluúrgang 23.112 kr. sem innheimt er samhliða fasteignagjöldum.
Heimilum í Dalabyggð ber að skila öðru sorpi og úrgangi sem ekki á heima í þessum tunnum/körum á endurvinnslustöðina að Vesturbraut 22 í Búðardal. Þetta á m.a. við um raftæki, málningu, rafgeyma, timbur, brotajárn, steypubrot og hjólbarða.
Timbur- og járngámar verða aðgengilegir í dreifbýli Dalabyggðar í sumar, líkt og síðustu ár. Hægt er að sjá stað- og tímasetningar gáma HÉR.
Upplýsingar um sorphirðu í Dalabyggð
Grenndarstöðvar eru ekki fyrir úrgang eða sorp frá fyrirtækjum eða aðilum sem ekki greiða sorphirðugjöld í Dalabyggð. Íslenska gámafélagið býður upp á þjónustu fyrir rekstraraðila/fyrirtæki á svæðinu. Hægt er að hafa samband við Íslenska gámafélagið fyrir frekari upplýsingar eða tilboð.
Vegna fyrirspurna varðandi genndargáma sem fjarlægðir voru í byrjun árs 2021 þá er sveitarfélaginu ekki heimilt að sinna sorphirðu með þeim hætti og verður það verklag ekki tekið upp að nýju.