Ungmennaskipti SEEDS

DalabyggðFréttir

Seeds mun senda 5 Íslendinga til þátttöku í ungmennaskiptunum „Melting Potes: An Artistic Adventure About Cultural Diversity“ sem mun fara fram í bænum Saint Julien en Beauchêne í Hautes-Alpes, Frakklandi.
Umsækjendur skulu almennt vera á aldrinum 18-25 ára, en a.m.k. einn meðlimur íslenska hópsins má þó vera á aldrinum 25-30 ára. Ekki er langur tími til umhugsunar því ungmennaskiptin fara fram daganna 5. – 26. ágúst og umsóknarfrestur er til miðnættis mánudaginn 22. júlí.

SEEDS tekur nú þátt í ungmennaskiptunum Melting Potes annað árið í röð en óhætt er að segja að verkefnið hafi slegið í gegn í fyrra. Í verkefninu mætast 20 ungir einstaklingar frá hinum ýmsu Evrópulöndum og vinna saman að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast meðal annars fjölmenningu, listsköpun og umhverfisvernd. Í verkefninu munu þátttakendur fá tækifæri til að dýpka þekkingu sína á ólíkum menningarheimum innan Evrópu með þátttöku í umræðum og vinnustofum þar sem þeim gefst meðal annars tækifæri til að skapa sín eigin verk sem endurspegla þema ungmennaskiptanna. Í vinnustofunum verður einnig fjallað um sjálfboðaliðastarfið og hvernig hægt er að vekja áhuga ungs fólks á virkri þátttöku í ungmennastarfi.

Þátttakendur munu einnig vinna saman að listrænu verkefni undir fyrirsögninni „Gerum það saman“ eða „Let’s do it together“ sem vísar til fjölþjóðlegs yfirbragðs verkefnisins. Í ár hefur verið ákveðið að leggja áherslu á sjónræna list og endurvinnslu en þátttakendur munu vinna saman að listrænni sköpun á svokölluðu „Land Art“ verki þar sem notast verður við endurvinnanlegan efnivið.

Undir lok ungmennaskiptanna mun fara fram hátíð þar sem þátttakendur munu meðal annars sýna verk sín en þeir munu taka virkan þátt í skipulagningu hátíðarinnar og hátíðarhöldunum sjálfum. Áhugasamir þátttakendur með bakgrunn í tónlist, dansi, leiklist eða öðrum tegundum sköpunar munu fá tækifæri til að koma hæfileikum sínum á framfæri á hátíðinni.

Ungmennaskiptin munu fara fram á ensku og þátttakendur þurfa að hafa gott vald á talaðri ensku.

Námskeiðið er styrkt af ungmennaáætlun Evrópusambandsins og því munu þátttaknedur fá allt að 70% endurgreiðslu vegna ferðakostnaðar auk þess sem þeim er séð fyrir fæði og húsnæði á meðan að verkefninu stendur.

Allar nánari upplýsingar auk umsóknareyðublaðs er að finna á heimasíður Seeds, www.seeds.is eða senda póst á Unni Eyfells á netfangið outgoing@seeds.is.

Seeds

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei