Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir þeir sem lesa Dalapóstinn og/eða heimasíðu okkar, www.dalir.is eða Facebook síðuna „Sveitarfélagið Dalabyggð.
Undirritaður kom til starfa þann 2. ágúst síðastliðinn og tók þá við starfi sveitarstjóra Dalabyggðar af Kristjáni Sturlusyni. Um leið og ég þakka Kristjáni fyrir hans störf og góða viðkynningu þá vil ég þakka starfsfólki Dalabyggðar og öðrum íbúum Dalabyggðar sem ég hef hitt á förnum vegi fyrir góðar og notalegar móttökur.
Það er ánægjulegt að finna þann kraft sem ég skynja víða hér í okkar fallega byggðarlagi. Það er uppbyggingarhugur, við höfum verið að úthluta lóðum og vonandi verður framhald á slíku þannig að við náum að manna allar þær stöður í atvinnulífinu sem við þurfum að halda utan um.
Umferð ferðamanna hefur verið mikil í sumar og tjaldsvæðin í Dalabyggð verið mjög vel nýtt. Á tjaldsvæðinu í Búðardal var júlímánuður einn og sér stærri en allt sumarið 2021, samkvæmt því sem umsjónarmaður tjaldsvæðisins tjáði undirrituðum. Einnig hefur verið afar líflegt á veitingastöðum og gististöðum heyri ég og sé.
Nú fyrir skömmu voru undirritaðir samningar um kaupleigu á fasteignum Dalabyggðar á Laugum. Það er ánægjulegt að þangað munu koma aðilar og hefja heilsársrekstur. Jafnframt gefur þessi samningur áformum okkar um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal byr undir báða vængi og væntingar standa til að við getum tekið næstu skref í þá átt á næstu misserum.
Verkefnið DalaAuður er á fullu skriði og hefur verkefnastjórn unnið með þær afurðir sem urðu til á íbúaþingi í vor. Þriðjudaginn 23. ágúst kl. 18:00 verður haldinn íbúafundur í Dalabúð þar sem staðan verður tekinn og íbúum gefst þar kostur á að hafa áhrif á framvindu verkefnisins með beinum hætti. Vil ég hvetja ykkur og okkur öll til þess að mæta í Dalabúð þann dag og taka þátt í þessu spennandi verkefni.
Samþykkt var í byggðarráði Dalabyggðar í júlí, að höfðu samráði við og samþykki annarra eigenda, að setja félagsheimilið á Staðarfelli í sölumeðferð og mun auglýsing þess efnis birtast á næstunni.
Sturluhátíð var haldin um síðastliðna helgi og tókst vel. Það er afar mikilvægt að við hömpum þeim sagna- og menningararfi sem hér drýpur af hverju strái og ber að þakka þeim sem að hófu það mikilvæga starf sem Sturlufélagið sinnir nú af alúð.
Ágætu Dalamenn, að ofansögðu má sjá að það er líf og fjör í Dölum og hér var aðeins stiklað á stóru og örugglega eitthvað sem er ósagt af því sem áhugavert er og jákvætt. Nú fara senn að nálgast haustdagar með tilheyrandi verkefnum tengdum skólabyrjun, tómstundarstarfi og haustverkum í kringum sauðfjárbúskap.
Með vinsemd,
Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri