Hvað varð um Melkorku?
Sunnudaginn 1. ágúst verður dagskrá um konungsdótturina Melkorku Mýrkjartansdóttur.
Sunnudaginn 1. ágúst verður dagskrá fyrir unga og aldna um konungsdótturina Melkorku sem numin var á brott frá Írlandi og flutt í Dali.
Farið verður um söguslóðir á fjölskyldubílnum og saga hennar rakin og upplifuð og er þannig tilvalinn sunnudagsbíltúr fyrir fjölskylduna.
Upphaf dagskrár er í Leifsbúð í Búðardal klukkan 12:30 þar sem sagan er rifjuð upp með hjálp mynddiskins um hana; Melkorka, rætur íslenskrar menningar.
Í Leifsbúð er hægt að fá keyptar veitingar.
Ekið verður um um söguslóðir með viðdvöl í Laxárósi og á Höskuldsstöðum. Endað verður í Hjarðarholtskirkju þar sem dagskráin endar um kl. 15 á helgistund með söngvum frá heimalandi Melkorku. Á eftir er hægt að setjast út í skógarlund með nestið sitt.
Fyrir dagskránni standa séra Óskar Ingi Ingason sóknarprestur og séra Jakob Ágúst Hjálmarsson höfundur mynddisksins um Melkorku.
Þátttaka er ókeypis.