Í gær, fimmtudaginn 24. nóvember var haldinn samhristingur ferðaþjóna og áhugafólks um atvinnugreinina á Vínlandssetrinu í Búðardal.
Garðar Freyr Vilhjálmsson, formaður atvinnumálanefndar Dalabyggðar hóf dagskránna á ávarpi þar sem hann fór yfir tækifæri sveitarfélagsins í ferðamennsku og nauðsyn þess að Dalabyggð, ekki síður en landið allt, verði tilbúin til að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem spár segja að sé væntanlegur á næstu árum.
Margrét Wendt og Valdís Anna Steingrímsdóttir, sérfræðingar hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar komu og kynntu starfsemi þess. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er sérfræðisetur sem aðstoðar við að koma á fræðslu og þjálfun í fyrirtækjum ferðaþjónustunnar. Hæfnisetrið vinnur samkvæmt þjónustusamningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið og er ráðgjöfin fyrirtækjum að kostnaðarlausu. Hægt er að kynna sér starfsemi setursins og nálgast gagnlegt fræðsluefni á heimasíðu þess: Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Jódís Jakobsdóttir og Konráð Gottliebsson, eigendur Hoppland á Akranesi heimsóttu okkur með kynningu á fyrirtækinu og sögðu frá uppbyggingu þess. Jódís og Konráð byrjuðu starfsemi sína með uppstöfluð viðarbretti í Reykjavík en reka nú fyrirtækið á Akranesi þar sem þau eru með glæsilega stökkpalla, loftpúða, 80 blautbúninga í öllum stærðum og standa fyrir ýmsum námskeiðum. Þau sögðu mikla vinnu fara í fyrirtækið en þau fagna því að fá að vinna við það sem þau hafa gaman af. Hægt er að kynna sér Hoppland á heimasíðu fyrirtækisins: Hoppland
Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri Krauma í Borgarfirði kom einnig í heimsókn þar sem hann sagði frá aðstöðu og rekstri Krauma ásamt því að fara yfir sérstöðu þeirra og framtíðarsýn. Krauma er staðsett við Deildartunguhver í Reykholtsdal sem er vatnsmesti hver í Evrópu sem nýttur er í náttúrulaugar á staðnum. Veitingastaður Krauma skapar sér sérstöðu með því að leggja áherslu á hráefni úr héraði. Krauma stefnir á frekari uppbyggingu á staðnum og hvetur ferðaþjóna til frekara samstarfs, það gagnist öllum að snúa bökum saman. Upplýsingar um Krauma, laugarnar og veitingastað má finna hér: Krauma
Eftir smá kaffihlé hóf Kristján Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Vesturlands leikinn að nýju. Kristján fór yfir starfsemi Markaðsstofunnar og þá stoðþjónustu sem þau veita samstarfsaðilum á Vesturlandi. Rétt er að ítreka orð Kristjáns varðandi skráningu á Mannamót 2023. Markaðsstofur landshlutanna halda árlega ferðakaupstefnuna Mannamót á höfuðborgarsvæðinu, þar sem landsbyggðarfyrirtæki í ferðaþjónustu fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Opið er fyrir skráningar til 20. desember n.k.
Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu kom einnig með kynningu þar sem hún fór yfir stöðuna á vinnu við Vestfjarðaleiðina. Vestfjarðaleiðin er ferðamannaleið um Vestfirði og Dalina sem opnaðist við opnun Dýrafjarðarganga í október 2020. Leiðin er um 950 km með einstökum áningarstöðum og upplifunum. Þórkatla nefndi að unnið er að því að bæta heimasíðu verkefnisins ásamt því að á nýju ári eigi að virkja verkfærakistu fyrir þátttakendur. Hægt er að kynna sér Vestfjarðaleiðina (The Westfjords Way) á heimasíðu verkefnisins: Vestfjarðaleiðin
Þorgrímur Einar Guðbjartsson mætti fyrir hönd Kruss ehf. sem nýlega fékk styrk úr frumkvæðissjóði DalaAuðar fyrir verkefnið „Jólasveinar á Íslandi eru úr Dölunum“. Það var með útgáfu Jóhannesar úr Kötlum á bókinni „Jólin koma“ árið 1932 þar sem endanlega var gert út um það hverjir væru hinir 13 jólasveinar. Verkefnið snýst um að gera jólasveinunum skil, sem og að halda til haga uppruna þeirra úr Dölunum. Útfærslan væri sú að finna 13 staði út um alla Dali sem væru tilbúnir að fóstra einn jólasvein. Hver og einn gerir sínum jólasvein skil á þann hátt sem viðkomandi vill. Með þessu verkefni yrði til ný afþreying, gestum væri dreift meira um héraðið og svo væri hægt að huga að afleiddum verkefnum líkt og minjagripum. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Þorgrím á Erpsstöðum varðandi þátttöku.
Seinasta kynning á dagskrá var frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, verkefnastjóra hjá Dalabyggð, sem fór yfir ýmsar tölur úr ferðaþjónustunni og ferðavenjur erlendra ferðamanna á Íslandi. Rýnt var í hvaða tækifæri felast í auknum fjölda ferðamanna, meiri veltu innan greinarinnar, því sem ferðamenn eru ánægðir með og þeim atriðum sem hægt er að bæta. Spár segja nærri 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til Íslands árið 2023. Langflestir finna fyrir öryggistilfinningu á Íslandi, eru ánægðir með ástand á náttúrulegu umhverfis og afþreyingu almennt á landinu. Þó er ekki endilega samsvörun milli þess sem ferðamenn gera og svo þess sem þeir eru ánægðir með. Í þessu öllu felast hin ýmsu tækifæri fyrir ferðaþjóna á Íslandi og í Dalabyggð.
Í lokin var svo tekið spjall um hin ýmsu mál sem brenna á ferðaþjónum í Dalabyggð. Heppnaðist dagskráin mjög vel og nýtist vonandi inn í nýtt starfsár. Það er komið á áætlun að standa fyrir öðrum svona samhristing á nýju ári og að þá verði rýnt í umhverfismál og gæðavottanir ásamt sjálfbærni ferðaþjónustunnar á Íslandi. Þeim sem fluttu erindi er þakkað enn og aftur kærlega fyrir þátttöku í dagskránni.