Helgiganga og messa á Dagverðarnesi

DalabyggðFréttir

Sunnudaginn 15. ágúst kl. 14 verður messað í Dagverðarnesskirkju. Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir þjónar fyrir altari og sr. Gunnþór Þ. Ingason prestur á sviði þjóðmenningar predikar. Halldór Þórðarson leikur á harmonikku, Sigrún Halldórsdóttir á klarinett og Ríkarður Jóhannsson á saxófón.
Fyrir messu,kl. 12:30, verður gengið í helgigöngu í nágrenni kirkjunnar með keltneskan sólarkross. Prestarnir leiða helgistundir við Altarishorn og Kirkjuhóla. Kristín Finndís Jónsdóttir sem á rætur á nesinu lýsir umhverfi og kennileitum. Eftir messu býður hún gestum í kirkjukaffi.
Dagverðarnes gengur út frá Fellsströnd og er þar fagurt um að litast. Gott skipalægi er í voginum. Örnefni í Dagverðarnesi t.d. Írahöfn og Bænahólmi, gætu vísað til keltneskrar byggðar og bænastaða frá fyrri tíð.
Sagt er í Landnámu að Auður Djúpúðga hafi komið við á nesinu og snætt þar dögurð og af því sé nafn þess dregið, en líkt orð á gelísku mun hins vegar þýða víðfeðmt land.
Elstu heimildir um bænhús í Dagverðarnesi eru frá miðri 13. öld og þar varð fyrst sóknarkirkja 1758. Núverandi kirkja var endurbyggð árið 1933 að mestu úr viðum eldri kirkjunnar frá árinu 1848 og þarfnast hún nú gagngerra endurbóta.
Sóknarnefnd Dagverðarnesskirkju, Dalaprestakall,starfshópur þjóðkirkjunnar um helgistaði á föruleiðum og velunnarar standa að þessu helgihaldi.
Allir eru hjartanlega velkomnir.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei