Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskóladeild Auðarskóla

DalabyggðFréttir

Á 248. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar var samþykkt samhljóða að veita nemendum grunnskóladeildar Auðarskóla gjaldfrjálsar máltíðir frá og með byrjun skólaárs í ágúst 2024.

Fyrr í sumar samþykkti Alþingi frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á skólamáltíðir.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við nýgerða langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.

Á fundi sveitarstjórnar lá fyrir minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga sem og skjal um aðkomu Jöfnunarsjóðs að verkefninu sem er í takt við þær áætlanir sem Dalabyggð gerði. Viðbótakostnaði sem af verkefninu hlýst var vísað til viðauka við fjárhagsáætlun og verður tekið fyrir á næsta fundi byggðarráðs.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei