Forvarnarhópur Dalabyggðar – erindisbréf staðfest

DalabyggðFréttir

Í 249. sveitarstjórnarfundi Dalabyggðar var staðfest erindisbréf forvarnarhóps Dalabyggðar að tillögu félagsmálanefndar.

Forvarnarhópurinn er formlegur starfs- og samráðsvettvangur starfsmanna og stofnana sem koma að og tengjast málefnum barna og ungmenna með það að markmiði að stuðla að öruggara umhverfi og heilbrigðara líferni í samfélaginu. Í hópnum verða fulltrúar lögreglunnar á Vesturlandi, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, félagsþjónustu Dalabyggðar, Auðarskóla, íþróttastarfs og tómstundarstarfs í Dalbyggð.

Hlutverk hópsins er að fylgjast almennt með málefnum og forvörnum tengdum börnum og ungmennum í Dalabyggð, samræma aðgerðir, veita stuðning og fræðslu og safna upplýsingum þeim tengdum. Auk þess mun hópurinn hafa yfirsýn yfir niðurstöður rannsókna sem tengjast málaflokknum, sem og þau uppeldis- og meðferðarúrræði sem í boði eru. Lagt er upp með að fundir séu haldnir mánaðarlega á meðan Auðarskóli starfar, en oftar ef þörf krefur og málefni gefa tilefni til.

Hópar sem þessir eru ekki nýmæli enda mörg sveitarfélög farið þá leið að stofna slíkan hóp. Er það von Dalabyggðar að starf hópsins muni skila sér í skilvirkari samskiptum vegna málaflokksins, bættri líðan, lýðheilsu og öruggara samfélagi, með sérstaka áherslu á börn og ungmenni.

Fyrir fundinn komu einnig frá félagsmálanefnd tillögur að nýjum reglum, annars vegar um félagslega heimaþjónustu og hins vegar fjárhagsaðstoð. Voru reglurnar samþykktar samhljóða á fundinum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei