Jólasýningar safnanna 2024

SafnamálFréttir

Jólaföndur er þema jólasýninga Byggðasafns Dalamanna, Héraðsbókasafns Dalasýslu og Héraðsskjalasafns Dalasýslu jólin 2024. Er þetta sýning sem byggir á framlagi heimamanna og verður hægt að bæta við sýninguna alveg fram til jóla.

Áhugasamir föndrarar geta dundað við iðju sína á bókasafninu og fengið ómælda hvatningu hjá bókaverði. Þar er að finna áður nýttan pappír sem búið er að safna allt árið til verkefnisins. Einnig er hægt að föndra heima og koma með afraksturinn á sýninguna. Mælum sérstaklega með hugmyndum sem byggja á endurvinnslu.

Aðrir sem eru að taka til í jólaskrautinu sínu og eru aflögufærir eða vilja gefa því nýtt líf geta einnig komið með það á sýninguna eða til varðveislu til notkunar á jólasýningum framtíðarinnar. Ekki er mikið til af jólatengdum munum á byggðasafninu og allt jólaskraut er því vel þegið, sérstaklega heimatilbúið.

Rétt er að taka fram við afhendingu ef viðkomandi vill fá sitt jólaskraut aftur eftir sýninguna.

Bókasafnið er opið á þriðjudögum og föstudögum kl. 12:30-17:30.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei