Þingflokkur Viðreisnar heimsótti Dalabyggð

DalabyggðFréttir

Svokölluð kjördæmavika stendur nú yfir, en slíkar vikur eru haldnar svo þingmenn og ráðherrar geti farið um kjördæmi sín og hitt þar sveitarstjórnir, heimsótt fyrirtæki og kjósendur. Á meðan kjördæmavika gengur yfir eru engin þingfundir á Alþingi, næsti þingfundur er á dagskrá 3. mars. Þessir dagar eru hverjum þingmanni, landshluta og sveitarfélagið mikilvægir.

Þingflokkur Viðreisnar er á ferð um Norðvesturkjördæmi þessa kjördæmaviku og gerðu sér heimsókn í Dalabyggð í gær, þriðjudaginn 25. febrúar.

Heimsóknin hófst á innliti í MS þar sem framleiðsla og starfsemi voru kynnt, þá var farið á starfsstöð Vegagerðarinnar í Búðardal þar sem ástand vega í sveitarfélaginu var m.a. til umræðu. Að því loknu var tekið stutt innlit í Nýsköpunarsetur Dalabyggðar og farið yfir núverandi og tilvonandi uppbyggingu í Búðardal, s.s. íþróttamannvirki og atvinnuhúsnæði. Að því loknu var haldið inn í Hörðudal þar sem þingflokkurinn fundaði með sveitarstjórnarfulltrúum í Dalahyttum áður en þau héldu áfram för sinni um Skógarstrandarveg út á Snæfellsnes.

Þingflokkur Viðreisnar og starfsfólk í heimsókn hjá starfsstöð Vegagerðarinnar í Búðardal

Þingflokkur Viðreisnar og starfsfólk í heimsókn hjá starfsstöð Vegagerðarinnar í Búðardal

Það var því tæpt á ýmsum málum við bæði þingmenn og ráðherra í dag. Staða sveitarfélagsins var rædd m.a. með tilliti til búsetuskilyrða, innviða og atvinnu. DalaAuður var að sjálfsögðu til umræðu, sem og verkefnið „Dalabyggð í sókn“ og hvaða áhrif þessi verkefni hafa haft á samfélagið. Þá var góður tími tekinn í umræður um starfsumhverfi landbúnaðarins. Ýmis fleiri mál voru til umræðu s.s. rafmagnsöryggi, fjarskiptamál, starf Óbyggðanefndar og kröfur á starfsemi sveitarfélaga.

Það má með sanni segja að þau hafi fengið góða innsýn í starfsemi og samsetningu sveitarfélagsins Dalabyggðar. Gestirnir fengu einstaklega gott veður í heimsókninni og fóru burtu eftir að hafa snætt lambakjöt úr Dölum, með ýmis mál og tilmæli í farateskinu.

Við þökkum þingflokki Viðreisnar, þingmönnum, ráðherrum og starfsfólki fyrir komuna, samskipti og áheyrn.

Fyrir forvitnissakir kíkti Jón Gnarr inn á Héraðsbókasafn Dalasýslu þar sem hann hitti fyrir Sigríði bókasafnsvörð en þau léku sér saman sem börn í Reykhólasveitinni.

Fyrir forvitnissakir kíkti Jón Gnarr inn á Héraðsbókasafn Dalasýslu þar sem hann hitti fyrir Sigríði bókasafnsvörð en þau léku sér saman sem börn í Reykhólasveitinni

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei