23,5 milljón vegna verkefna í Dalabyggð

DalabyggðFréttir

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum króna til þrettán fjölbreyttra verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag styrkjanna kemur af byggðaáætlun. Af þeim verkefnum sem hlutu styrk að þessu sinni eru tvö verkefni í þágu Dalabyggðar. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sóttu um styrkina og halda utan um verkefnin í samstarfi við Dalabyggð.  

Auðarstofa – Nýsköpunar- og þekkingarsetur í Dalabyggð 
Styrkupphæð: 13,5 m.kr.
Verkefnið snýst um að efla Nýsköpunarsetur Dalabyggðar til muna með því að standsetja verklegt rými og setja þar einnig á legg þekkingarsetur. Fyrsta árið verður þróuð stefna og áherslur fræðasetursins, unnið að hönnun rýmisins, ásamt því að unnið yrði að endurbótum á rýminu. Seinna árið yrði unnið markmisst að því að efla starfsemi í setrinu með áherslu á fjölgun sérfræðistarfa og skipulagt fræðsluátak fyrir frumkvöðla, atvinnurekendur og íbúa.

Með þessu er leitast við að skapa sterkari grundvöll fyrir sérfræðistörf í Dalabyggð en einnig að efla getu setursins til að miðla þekkingu til íbúa.  

„Hver vegur að heiman er vegurinn heim“ 
Styrkupphæð: 10 m.kr.
Verkefnið snýst um að draga fram og miðla tækifærum innan Dalabyggðar, með það að markmiði að efla byggðafestu. Byggðafesta stendur og fellur með núverandi íbúum og mikilvægt er að sporta við brottflutningi íbúa með öllum ráðum. Þetta á að gera með fjölbreyttum aðferðum, með því að ná bæði til ungs fólks og fullorðinna íbúa. Þróuð veður kennsla í átthagafræði, skipulagðar fjölbreyttar starfskynningar, búið til tengslanet við fráflutt ungmenni, unnið að vönduðu margmiðlunarefni og skipulögð vönduð fræðsluröð sem eykur þekkingu íbúa á heimabyggð sinni.  

Það er von okkar að þróunarverkefni sem þessi efli byggðina enn betur og styðji við önnur framfaraverkefni sem eru í gangi í sveitarfélaginu.   

Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Stjórnarráðsins: Þrettán verkefni fá úthlutað 140 milljónum

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei