Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir velunnarar Dalanna,
Í ljósi þess að nú fer sumri brátt að halla og sumarlokun Dalabyggðar að bresta á þá langar mig til að koma nokkrum „sumarmolum“ á framfæri hér á heimasíðu Dalabyggðar.
Líkt og fram hefur komið þá verður skrifstofa Dalabyggðar lokuð frá 23. júlí til og með 6. ágúst nk. Skrifstofan opnar aftur eftir sumarleyfi fimmtudaginn 7. ágúst kl. 09:00. Við bendum á að hægt er að senda tölvupóst á netfangið dalir@dalir.is meðan á sumarlokun stendur og við svörum við fyrsta tækifæri. Röskun getur orðið á útgáfu einhverra reikninga vegna gjalda á vegum sveitarfélagsins á þessum tíma þ.e. reikningar gætu borist aðeins seinna en vant er. Eindagi gjalda/reikninga mun samt sem áður alltaf vera 30 dagar.
Framkvæmdir við íþróttamannvirki eru í fullum gangi og miðar verkinu samkvæmt áætlun, bæði hvað tímasetningar varðar og eins kostnaðarlega út frá upprunalegum áætlunum. Ljóst er að einhver viðbótarverk munu koma til í ljósi framvindu verksins og eins hvað varðar búnaðarkaup t.a.m. hvað varðar saunahús sem ákveðið hefur verið að bæta við. Í því samhengi er ánægjulegt að segja frá því að við vígslu nýs eldishús fyrir kjúklinga í Miðskógi sem fram fór föstudaginn 18. júlí sl. færði Reykjagarður Dalabyggð styrk að fjárhæð 500.000 kr. sem mun koma sér vel t.a.m. við kaup á saunahúsi. Það er spurning hvort við finnum velviljuð fyrirtæki til að létta undir með okkur við kaup á rennibraut, hver veit ?
Talandi um íþróttamannvirki og þar með lýðheilsu þá er gaman að segja frá því að fyrir stuttu var skrifað undir ráðningarsamning, til eins árs fyrst í stað, við Ísak Sigfússon vegna starfs lýðheilsufulltrúa hjá okkur í Dalabyggð í ljósi þess að Guðný Erna núverandi lýðheilsufulltrúi okkar mun láta af störfum í haust. Samhliða hefur verið gengið frá því að unnusta Ísaks, Helga Dóra, sem mörg ykkar eflaust kannast við, hefji störf hér í Búðardal sem sjúkraþjálfari. Ísak nam íþróttafræði í HÍ og í kjölfarið fór hann í sjúkraþjálfun og lauk meistaraprófi í þeim fræðum í júní 2023. Ísak mun hefja störf hjá Dalabyggð í lok september.
Fleiri framkvæmdir heldur en við íþróttamannvirki á vegum Dalabyggðar og eldishús í Miðskógi eru í gangi í Dölum. Svo nokkur dæmi séu tekin þá er Olís að klára framkvæmdir við dæluplan sitt við innkomuna í Búðardal, verið er að fara af stað við fráveitukerfið í Búðardal, Míla ætlar að ljúka við lagningu ljósleiðarakerfis í Búðardal í haust og ný ullarvinnsla tók til starfa fyrr í sumar. Verið er í framkvæmdum víða í dreifbýlinu við smíði húsa af ýmsum gerðum, bæði til einkanota og til nota í atvinnuskini, t.a.m. ferðaþjónustu og einnig er Leigufélagið Bríet langt komið með parhús í Búðardal. Það er kraftur Dölunum nú sem fyrr.
Nokkur langþráð verkefni tengd vegakerfinu eru að fara af stað á allra næstu dögum og má þar nefna kafla á milli Haukadalsár og Brautarholts, vegkafla við Gröf, við innkomu beggja vegna inn í Búðardal, í Svínadal og á Bröttubrekku þannig að við megum eiga von á einhverjum töfum hvað umferð varðar hér í Dölunum. Ég vil hvetja alla þá sem leið eiga um að gæta varúðar og sýna þeim sem á vegunum eru við störf þá aðgát að ekki steðji hætta af, á þetta líka við um starfsmenn Vegagerðarinnar í sínum daglegu eftirlits- og viðhaldsverkefnum, það er aldrei of varlega farið á vegunum.
Útboð á úrgangsþjónustu fyrir Dalabyggð fer í loftið á næstu dögum en núverandi samningur við Íslenska Gámafélagið rennur út um næstu áramót. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því ferli. Talandi um úrgangsmál þá vil ég hér minna á pistil minn frá því fyrr í sumar varðandi grenndarstöðvarnar og mikilvægi þess að við öll hjálpumst að við að halda þeim eins snyrtilegum og kostur er. Sumar þeirra eru greinilega orðin vinsæll viðkomustaður fugla og því mjög mikilvægt að við lokum vel þeim ílátum sem um ræðir þannig að aðkoman verði ekki eins skelfileg og hefur orðið raunin nokkrum sinnum í sumar, því miður.
Að endingu vil ég nefna að nú hafa sveitarstjórnir Dalabyggðar og Húnaþings vestra samþykkt að hefja formlegt sameiningarferli og er stefnt að því að sú vinna fari í fullan gang upp úr miðjum ágúst. Munu íbúar verða upplýstir um framgang verkefnisins og ekki síst m.t.t. þess þegar kemur að beinni þátttöku íbúa í ferlinu sem ég vil hvetja alla til að taka þátt í. Stefnt er að því að íbúakosning verði fyrstu dagana í desember.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru varðandi það sem á döfinni er hjá okkur í Dalabyggð. Það er nóg um að vera og spennandi tímar fram undan hér í Dölunum okkar góðu.
Með vinsemd og góðum kveðjum,
Björn Bjarki Þorsteinsson