Af fundi með innviðaráðherra í Borgarnesi

DalabyggðFréttir

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur boðað til opinna íbúafunda í ágúst í öllum landshlutum til að eiga samráð um málaflokka ráðuneytisins. Tilgangur fundanna er að kalla eftir sjónarmiðum íbúa og sveitarstjórnarfólks um málaflokka ráðuneytisins – samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál og fjarskipti og stafræna innviði.

Fulltrúar Dalabyggðar mættu á fund innviðaráðherra í Borgarnesi miðvikudaginn 13. ágúst sl. þar sem sveitarstjóri Dalabyggðar afhenti ráðherra minnisblað um stöðu vegamála í Dalabyggð ásamt skýrslu um forgangsröðun vegaframkvæmda og skýrslu um forgangsröðun í fjarskiptamálum sem atvinnumálanefnd Dalabyggðar vann á síðasta ári. 


Sveitarstjóri Dalabyggðar fór yfir stöðuna í Dalabyggð á fundinum sem bar yfirskriftina:
„Fjárfestum í innviðum til framtíðar“.

Í minnisblaðinu sem ráðherra var afhent kom m.a. fram: 
„Dapurt ástand þessara grunnþátta hafa haft neikvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs í Dalabyggð sem og neikvæð áhrif á byggðaþróun svæðisins. Nauðsynlegt er að mikill kraftur verði settur í það að bæta úr öllum þessum þáttum innviða til að styðja við grunnatvinnuvegi svæðisins, sem eru landbúnaður og ferðaþjónusta, en ástand þessara grunnátta eru afar hamlandi áframhaldandi uppbyggingu.“

Í niðurlagi minnisblaðsins sagði: 
„Öll rök eru með því að innviðir í Dalabyggð verði styrktir til að byggð og atvinna geti haldið áfram að byggjast upp og þróast. Stjórnvöld geta ekki talað fyrir því að fólki sé frjálst að velja sér búsetu ef því er svo á sama tíma hamlað með því að aðhafast ekkert þegar grunnþættir líkt og vegakerfi, rafmagn og farsímasamband eru varla til staðar.“

Fulltrúar Dalabyggðar á fundinum voru Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri, Ingibjörg Þóranna Steinudóttir oddviti og formaður fræðslunefndar, Guðlaug Kristinsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, Garðar Freyr Vilhjálmsson sveitarstjórnarfulltrúi og formaður atvinnumálanefndar og Jóhanna María Sigmundsdóttir staðgengill sveitarstjóra og verkefnastjóri.


Fulltrúar Dalabyggðar á fundinum ásamt innviðaráðherra að loknum fundi.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei