BARNÓ – Barnamenningarhátíð Vesturlands október 2025

DalabyggðFréttir

Í október fer fram barnamenningarhátíðin BARNÓ – BEST MEST VEST sem breiðir út gleði og hressleika um allt Vesturland. Hátíðin er tileinkuð börnum og ungmennum á svæðinu og hefur það að markmiði að efla sköpunarkraft, gleði og þátttöku í fjölbreyttu menningarlífi landshlutans.

Í boði verða viðburðir um allt Vesturland og er Dalabyggð enginn eftirbátur þar! Hér fyrir neðan er hægt að nálgast upplýsingar um fyrstu viðburði sem komnir eru á dagskrá í Dölum – athugið að allir viðburðir eru ókeypis. Fylgist vel með því það á eftir að bætast við úrvalið.

Athugið Barnamenningarhátíðin er einnig tækifæri fyrir gæða- og samverustundir með börnunum!
Ætlast er til þess að foreldrar/forráðamenn/fullorðnir aðilar fylgi börnum upp að 12 ára aldri á viðburði.

DAGSKRÁ BARNÓ Í DÖLUM

5. október – Skapandi skrif með Ævari Þór Benediktssyni kl.13:00-15:00 í efri sal í Dalabúð, 5. bekkur og upp úrSkráning HÉR!
Hvernig maður tekur hugmynd og gerir hana að bók? Í leiðinni fer Ævar yfir hvernig hann hefur búið til bækurnar sínar og hjálpar krökkunum að byrja á sínum eigin.

7. október – Myndasögusamfélagið, kynning og örnámskeið kl. 15:00 í efri sal í Dalabúð – Skráning HÉR!
Myndasögusamfélagið heimsækir Dalina með stutta kynningu ásamt því að kenna fólki að föndra ör-myndasögur („Zine“ á ensku, stytting á orðinu „magazine“).
Athugið að notast er við skæri á örnámskeiðinu.

9. október – Íþróttavika Evrópu, Leikum saman með UDN kl. 16:00 í Dalabúð
Kanntu ringó, blak, brennibolta, boccia, frisbígolf… og sitthvað fleira? Langar þig jafnvel að læra þessa leiki eða bara fara út að leika.
Sjáumst í Dalabúð kl. 16 og tökum létta leiki.

11. október – Víkingaleikar (spjót-, axar- og grjótkast) kl. 17:00 að Eiríksstöðum
Eiríksstaðir bjóða upp á axarkast (í fylgd með fullorðnum fyrir börn), grjótkast og spjótkast laugardaginn 11. október milli 17-18:30
Öll eru börn velkomin að mæta og taka þátt og skemmta sér með okkur. Sjáumst hress!

14. október – Bangsadvöl á bókasafninu – koma með bangsa á bókasafnið milli kl. 12:30 og 17:30
Öllum börnum er boðið að koma með bangsann sinn í pössun á Héraðsbókasafni Dalasýslu þar sem bangsinn fær að gista tvær nætur og upplifa töfra sem eiga sér stað meðan bókasafnið er lokað. Komdu með bangsann þinn milli kl. 12:30 – 17:30 þriðjudaginn 14. október. Þú færð að búa til nafnspjald og getur lesið fyrir hann áður en þú ferð heim og bangsinn fer í góðan félagsskap með öðrum böngsum. Komdu svo og náðu í bangsann á milli kl. 12:30 – 17:30 á fimmtudeginum 15. október og þá færðu að vita í hvers konar ævintýrum hann lenti!

16. október – Bangsadvöl á bókasafninu – sækja bangsa á bókasafnið milli kl. 12:30 og 17:30
Öllum börnum er boðið að koma með bangsann sinn í pössun á Héraðsbókasafni Dalasýslu þar sem bangsinn fær að gista tvær nætur og upplifa töfra sem eiga sér stað meðan bókasafnið er lokað. Komdu með bangsann þinn milli kl. 12:30 – 17:30 þriðjudaginn 14. október. Þú færð að búa til nafnspjald og getur lesið fyrir hann áður en þú ferð heim og bangsinn fer í góðan félagsskap með öðrum böngsum. Komdu svo og náðu í bangsann á milli kl. 12:30 – 17:30 á fimmtudeginum 16. október og þá færðu að vita í hvers konar ævintýrum hann lenti!

18. október – Hestafjör Glaðs kl. 16:00 í Nesoddahöllinni í Búðardal (reiðhöll við hesthúsahverfi), fyrir allan aldur
Hestamannafélagið Glaður fær góða heimsókn frá Hestamannafélagið Þyt þar sem við fáum að kynnast hestafimleikum!

20. október – Brake dance með Pietro, fyrir 6-11 ára kl. 14:10 í Dalabúð
Pietro Porcu æfði brake dance í mörg ár og kenndi einnig bæði börnum og fullorðnum í nokkur ár á Ítalíu. Hann mun útskýra hvað brake dance er, stundum lítur það út fyrir að vera ómögulegt en þá þarf einmitt að brjóta það (brake it) niður til að skilja og læra. Hann mun bæði sýna okkur freestyle dans og einnig kenna okkur að dansa. Viðburðurinn tekur á bilinu 60-90 mínútur.

21. október – Brake dance með Pietro, fyrir 12-16 ára kl. 15:00 í Dalabúð
Pietro Porcu æfði brake dance í mörg ár og kenndi einnig bæði börnum og fullorðnum í nokkur ár á Ítalíu. Hann mun útskýra hvað brake dance er, stundum lítur það út fyrir að vera ómögulegt en þá þarf einmitt að brjóta það (brake it) niður til að skilja og læra. Hann mun bæði sýna okkur freestyle dans og einnig kenna okkur að dansa. Viðburðurinn tekur á bilinu 60-90 mínútur.

Auglýst þegar frekari upplýsingar liggja fyrir:

– Textílsmiðja
– Búningasmiðja
– Fundur unga fólksins (14-20 ára)
– Tónsmiðja

og fleira og fleira…

GEGNUM ALLAN MÁNUÐINN

Stigagangur Stjórnsýsluhúss skreyttur smásögum
Okkur langar svo að heyra hvað börnunum hlakkar til að gera í vetur. Hérna má nálgast skjal fyrir sögugerð, í skjalinu er rammi fyrir myndskreytingu og nokkrar línur fyrir frásögn. Skjalið er hægt að prenta út heima eða ná í eintak á skrifstofu Dalabyggðar og bókasafnið. Börn á öllum aldri mega taka þátt. Foreldrar mega að sjálfsögðu hjálpa yngstu börnum við að koma frásögn á blað. Þegar sagan er tilbúin má koma með hana í Stjórnsýsluhúsið/á bókasafnið (eða skila í póstkassa utan opnunartíma) og verða myndskreyttar frásagnir hengdar upp í stigagangi hússins. Sjá skjal hér: Rammi fyrir myndskreytta frásögn

Sýningar og leikföng í Stjórnsýsluhúsinu
Byggðasafn Dalamanna og Héraðsbókasafn Dalasýslu eru með sýningu á leikföngum og fleiru á bókasafninu. Leikföngin eru hluti af safnkosti byggðasafnsins. Þau eru frá mismunandi tímum, bæði aðkeypt og heimagerð. Þá eru ekki alveg nýjustu Andrésar andar blöðin frammi til lestrar, dönskukunnátta er kostur. Taflborð er framan við bókasafnið fyrir áhugasama. Framan við sýningarvegg í anddyri er bekkur með skeljum sem má leika sér að eftir þörfum. Á ganginum þar sem afgreiðsla sýslumanns, lögregla og héraðsskjalasafn eru, er sýning á völdum svarthvítum ljósmyndum Lárusar Magnússonar frá Tjaldanesi af börnum í Dölum og mun víðar. Þar er líka að finna nokkra muni frá Byggðasafni Dalamanna tengda börnum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei