Það er ýmislegt skemmtilegt og gott að frétta hjá okkur í Dalabyggð nú þegar haustið hefur tekið völdin og verkefni á ýmsum sviðum halda áfram af miklum krafti víða – ég vil hér klukka örfáa þætti í þessum molum mínum.
Þjóðlendumálin loks afgreidd
Það er mjög ánægjlegt að Óbyggðanefnd hefur nú staðfest að fallið hafi verið frá öllum kröfum ríkisins í eyjar og sker innan marka Dalabyggðar (svæði 12). Með því lýkur langvinnu ferli og mikilli vinnu sem margir hafa komið að. Þar á meðal og ekki síst héraðsskjalavörður okkar í Dalabyggð sem lagt hefur ómældan tíma í þetta mál. Ég vil færa öllum þeim sem að þessu hafa komið einlægar þakkir fyrir gott starf.

Óbyggðanefnd hefur fallið frá kröfum ríkisins um eyjar og sker innan marka Dalabyggðar (svæði 12).
Sameiningarmál Dalabyggðar og Húnaþings vestra
Ég vil hvetja íbúa eindregið til að kynna sér vinnu og gögn sem unnin hafa verið í tengslum við mögulega sameiningu sveitarfélaganna Dalabyggðar og Húnaþings vestra. Á vefnum www.dalhun.is má finna viðamikil gögn og upplýsingar um verkefnið. Mikilvægt er að sem flestir kynni sér efnið og taki virkan þátt í umræðunni um framtíð sveitarfélagsins okkar.

Á upplýsinga vef má meðal annars finna ítarlegri upplýsingar, forsendur fyrir mögulegri sameiningu, algengar spurningar og svör.
Framkvæmdir við íþróttamiðstöðina í Búðardal
Störf við nýju íþróttamiðstöðina hafa verið auglýst, sjá: Starfsfólk í íþróttamiðstöð, og gert ráð fyrir að starfsfólk taki til starfa í byrjun febrúar 2026. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun, bæði hvað tímasetningar og kostnað varðar, og allt kapp er lagt á að svo verði áfram.

Íþróttamiðstöðin samanstendur af íþróttasal, þjónustukjarna með búningsklefum, líkamsræktaraðstöðu og meðferðarherbergi til útleigu ásamt útisundlaug með heitum pottum, vaðlaug, sauna og köldu keri.
Barnamenningarhátíðin í fullum gangi
Barnamenningarhátíðin BARNÓ stendur nú sem hæst í Dölum, og heldur áfram fram í nóvember. Hvet ég ungt fólk á öllum aldri til að taka virkan þátt í fjölbreyttri dagskrá hennar. Sérstakar þakkir fá allir þeir sem sjá um skipulagningu og framkvæmd þessarar skemmtilegu og skapandi hátíðar.

Pietro Porcu sem býr og starfar í Dölunum, æfði brake dance í mörg ár á Ítalíu og kenndi einnig. Hann var með námskeið fyrir börn og unglinga í tengslum við dagskrá BARNÓ.
Haustfagnaður sauðfjárbænda
Um helgina fer fram haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dölum. Sannkölluð uppskeruhátíð sem sameinar fólk af öllum aldri. Dagskráin er fjölbreytt: Íslandsmeistaramót í rúningi, matar- og handverksmarkaður, hrútasýningar, svo ekki sé minnst á sviðaveisluna margrómuðu. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og fagna saman.

Það er gífurleg vinna og skipulag að baki haustfagnaði FSD. Eiga allir sem að undirbúningi og framkvæmd koma miklar þakkir skyldar fyrir framtakið.
Kynningarfundur Alor í Dalabúð
Í vikunni fór fram afar vel heppnaður kynningarfundur fyrirtækisins Alor í Dalabúð þar sem kynntir voru möguleikar á nýtingu birtu og sólarorku. Fundurinn var mjög vel sóttur og ljóst að margir Dalamenn eru áhugasamir um þennan spennandi orkukost sem gefur bæði tækifæri og innblástur til framtíðar.

Ríflega þrjátíu manns mættu á kynningarfund Alor um tækifæri framleiðslu og geymslu sólarorku í Dölunum.
Dalablaðið hefur vakið athygli
Það er mjög ánægjulegt að upplifa jákvæð viðbrögð sem hafa borist okkur, má segja alls staðar að af landinu, við Dalablaðinu okkar sem gefið var út í sumar og greinilegt að þörf var á þessu skemmtilega verkefni. Enn er til upplag ef fólk vill taka blaðið með sér á samkomur eða viðburði – endilega hafið samband við skrifstofu Dalabyggðar ef áhugi er á því.

Njótið helgarinnar.
– Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar.
