Í október til nóvember fór fram Barnamenningarhátíð Vesturlands; BARNÓ. Hátíðin var tileinkuð börnum og ungmennum á svæðinu og hafði það að markmiði að efla sköpunarkraft, gleði og þátttöku í fjölbreyttu menningarlífi landshlutans.
Í boði hafa verið viðburðir um allt Vesturland og Dalabyggð enginn eftirbátur þar. Reynt var að hafa fjölbreytt úrval ókeypis viðburða þar sem markmiðið var að bjóða upp á eitthvað allt annað en það sem í boði er alla jafnan í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu.
Ævar Þór Benediktsson rithöfundur reið á vaðið þann 5. október með námskeið í skapandi skrifum.
Þann 7. október fengum við svo heimsókn frá Myndasögusamfélaginu með námskeið í ör-myndasögum (e. Zine).
Íþróttavika Evrópu náði inn í hátíðina og stóð UDN fyrir „Leikum saman“ þann 9. október, þar sem hægt var að prufa m.a. ringó, blak, brennibolta, boccia og frisbígolf svo eitthvað sé nefnt.
Laugardaginn 11. október var í boði að spreyta sig í spjót-, axar- og grjótkasti að Eiríksstöðum í Haukadal.
Þann 14. október var boðið upp á „Bangsadvöl“ á bókasafninu þar sem ungir bangsaeigendur skildu bangsa sína eftir í umsjá bókavarðar, sem hjálpaði þeim svo að koma því blað sem á daga þeirra dreif áður en eigendur sóttu þá aftur tveimur dögum síðar.
18. október fékk Hestamannafélagið Glaður góða heimsókn frá hestafimleikadeild Hestamannafélagsins Þyts. Félagið hélt sýningu og svo fengu börn að prufa sig áfram æfingum og með búnað sem notaður er við slíka fimleika.
20. og 21. október var Pietro Porcu, brake-dansari sem búsettur er í Dölunum um þessar mundir, með námskeið þar sem börnin gátu lært grunnspor í brake dansi.
Nóvember var svo sannkallaður smiðju-mánuður. Boðið var upp á tónsmiðju með Gísla Þór Ingólfssyni, tröllabrúðusmiðju undir leiðsögn Gretu Clough frá Handbendi brúðuleikhúsi ásamt búninga- og textílsmiðju undir leiðsögn Lindu Traustadóttur.
Viljum við þakka fyrir þátttöku á þeim viðburðum sem hafa verið í boði. Það skiptir miklu máli að öll börn og ungmenni fái að prufa eitthvað allt annað en það sem þau hafa aðgengi að daglega. Þannig geta þau aukið sköpun og virkni, kynnst hvert öðru betur, víkkað sjóndeildarhringinn og jafnvel eignast ný áhugamál.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá viðburðum BARNÓ í Dölum.








