Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir vinir okkar í Dölum,
Um leið og jólahátíðin gengur í garð vil ég senda ykkur hlýjar kveðjur og færa ykkur þakkir fyrir góð samskipti og samstarf á árinu sem er að líða. Samheldni samfélagsins, virk þátttaka íbúa og gott samstarf sveitarfélags, fyrirtækja og félagasamtaka hafa verið lykilþættir í þeirri jákvæðu þróun sem Dalabyggð hefur gengið í gegnum undanfarin ár og gefa tilefni til bjartsýni þegar horft er til framtíðar.
Dalirnir eru í sókn. Það staðfestir meðal annars samantekt úr minnisblaði sem dr. Vífill Karlsson vann í kjölfar erindis sem hann hélt á opnum íbúafundi í Búðardal þann 8. október sl., í tengslum við verkefnið DalaAuð. Í erindinu var dregin upp skýr mynd af því hvernig þróunin í Dölunum hefur á flestum sviðum snúist úr vissu andstreymi í meðbyr að undanförnu.
Dalirnir og þar með sveitarfélagið Dalabyggð hafa á undanförnum árum tekið markvert stökk fram á við og niðurstöður nýjustu Íbúakannana landshlutanna staðfesta að svæðið stendur á traustum samfélagslegum grunni til framtíðar. Íbúakönnun landshlutanna árið 2023 sýnir að friðsæld, náttúrufegurð og sterkur samfélagsandi eru meðal helstu styrkleika Dalanna. Þótt áskoranir séu enn til staðar, einkum á sviði samgangna, fjarskipta og vöruverðs, hafa lífsgæði batnað á flestum sviðum frá fyrri könnunum. Athyglisvert er að Dalabyggð var það sveitarfélag sem sýndi mestar framfarir á landsvísu milli kannanna 2020 og 2023.
Á sama tíma hefur ánægja íbúa með þjónustu sveitarfélagsins aukist og traust til eigin áhrifa í lýðræðislegri ákvarðanatöku mælist með því hæsta sem þekkist á landinu. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að ungt fólk er ekki lengur líklegra til að íhuga flutning úr Dalabyggð en aðrir hópar, sem jafnan er skýr vísbending um jákvæða framtíðarþróun og aukna trú á samfélagið til lengri tíma.
Atvinnulíf í Dalabyggð hefur jafnframt tekið breytingum og styrkst að ýmsu leiti. Fyrirtækjum hefur fjölgað, atvinnugreinar orðið fjölbreyttari og iðnaður hefur reynst hafa meira vægi í tekjugrunni sveitarfélagsins en áður var talið. Nýsköpun er víða sýnileg og hefur meðal annars notið dýrmæts stuðnings frá DalaAuði og Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Þessi þróun styrkir bæði atvinnugrunn og búsetuskilyrði og skapar forsendur fyrir áframhaldandi sókn.
Íbúaþróun gefur sömuleiðis tilefni til bjartsýni. Íbúum fjölgar, þótt ekki sé um stór stökk að ræða, og hlutfall ungs fólks í samfélaginu eykst. Þá benda vísbendingar til þess að byggðarþróun í þéttbýlinu í Búðardal sé að snúast til betri vegar, sem hefur jákvæð áhrif á allt sveitarfélagið.
Heildarmyndin, þegar litið er til niðurstaðna Íbúakönnunar landshlutanna og túlkunar dr. Vífils Karlssonar á þeim, er því skýr svo vitnað sé beint í niðurlag fyrrgreinds minnisblaðs:
„Dalirnir standa á nýjum og sterkari grunni. Með samstilltu átaki íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins hefur tekist að snúa vörn í sókn. Það er erfitt að tilgreina eina ástæðu fyrir slíkum viðsnúningi, en ljóst er að DalaAuður, sveitarfélagið og samhentur og móttækilegur íbúahópur hafa allir átt drjúgan þátt í þeirri jákvæðu þróun sem nú blasir við.“
Ágæti lesandi, Dalabyggð er sveitarfélag í sókn og vilji til framfara er svo sannarlega til staðar. Í pistli sem ég birti á heimasíðu Dalabyggðar fyrir nokkru hafði ég á orði að kyrrstaða væri ekki valkostur. Sú afstaða er, og verður áfram, leiðarstef í mínum störfum í þágu samfélagsins í Dalabyggð. Þar nýt ég fulltingis kröftugs og faglegs samstarfsfólks, jafnt starfsmanna sem kjörinna fulltrúa.
Við þurfum að halda áfram að þróa og efla allt okkar starf, bæði innan sveitarfélagsins og í samfélaginu í heild, þannig að Dalabyggð sé og verði samkeppnishæf hvað varðar búsetugæði í öllum skilningi. Mikilvægt er að nýta vel þá fáu mánuði sem eftir eru af yfirstandandi kjörtímabili, því tíminn líður hratt þegar verkefnin eru mörg, metnaðarfull og spennandi samanber opnun íþróttamannvirkja á næstu vikum svo dæmi sé tekið.
Ég vil því, líkt og áður, hvetja ykkur, kæru íbúar og vinir, til að standa saman og stuðla þannig að því að komandi misseri færi okkur enn fleiri tækifæri og enn fleiri sóknarfæri – samfélaginu í Dölunum til heilla á allan hátt.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs og farsæls komandi árs, með kærri þökk fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu sem er að líða. Megi árið 2026 verða Dalabyggð og íbúum gott og gjöfult.
Með vinsemd,
Björn Bjarki Þorsteinsson
sveitarstjóri
