Dalamenn á landsmóti í harmonikuleik

DalabyggðFréttir

Dagana 17. – 19. október var Landsmót ungmenna í harmonikuleik haldið að Reykjum í Hrútafirði. Mótið er haldið á vegum S.Í.H.U. Sambands íslenskra harmonikuunnenda, en framkvæmd mótsins er í höndum Harmonikuakademíunnar í Reykjavík. Í undirbúningsnefnd fyrir mótið voru Guðmundur Samúelsson, Gunnar Kvaran og Reynir Jónasson. Þátttakendur voru tæplega 60 nemendur víðsvegar af landinu og gaman að segja frá því að 12 nemendur voru af Vesturlandi og þar af 7 úr Búðardal með kennara sínum Halldóri Þórðarsyni. Með nemendunum í för voru einnig foreldrar og forráðamenn. Mótið fór þannig fram í stórum dráttum að þátttakendur mættu á föstudagskvöld og þá hófust samæfingar á lögum sem nemendur fengu fyrr í haust til að spreyta sig á.
Á laugardagsmorguninn var líka líka æft stíft og kl. 14:00 hófust tónleikar sem byrjuðu á því að þessi stóra hljómsveit lék saman nokkur lög undir stjórn Reynis Jónassonar. Aðdáunarvert var á að hlýða hversu vel tókst til og var hægt að ímynda sér að æfingar hefðu staðið yfir í margar vikur, svo mikil var nákvæmnin. Eftir það léku nemendur ýmist einleik eða nokkrir saman. Síðdegis var frjáls tími þar sem gestum gafst kostur á að skoða Byggðasafn Strandamanna, fara í sund eða íþróttir, allt eftir áhugamálum hvers og eins. Um kvöldið voru svo tónleikar eldri nemenda, þeirra sem lengra komnir eru í náminu. Á báðum þessum tónleikum komu fram mjög hæfileikaríkir harmonikuleikarar og er ekki annað hægt en að dást að þessu unga fólki sem kemur fram fyrir fullan sal af fólki með harmonikurnar sínar og spilar af snilld. Á sunnudaginn var svo mótinu formlega slitið.
Þetta landsmót ungmenna er það 4. í röðinni sem S.Í.H.U. heldur og í 2. skipti sem það er haldið að Reykjum og má geta þess að nú þegar er ákveðið að það verði þar að ári.
Melkorka Ben.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei