Haustfagnaður FSD 2013

DalabyggðFréttir

Haustfagnaður FSD hófst í dag kl. 12 í Gröf í Laxárdal á lambhrútasýningu í Dalahólfi. Í kvöld er síðan sviðaveisla, hagyrðingar, skemmtun og dansleikur í íþróttahúsinu á Laugum.
Fjöldi manns var mættur í Gröf að skoða og þukla hrútana. Á sýninguna voru skráðir 40 hyrndir hrútar, 7 kollóttir og 10 mislitir.
Í úrslit í flokki hyrndra hrúta eru komnir nr. 382 Heljarskinn frá Geirmundarstöðum, nr. 3088 frá Hallsstöðum, nr. 508 frá Klifmýri, nr. 2281 og 2283 frá Rauðbarðaholti.
Í flokki kolóttra nr. 341 Prúður frá Hornstöðum, nr. 91 frá Gillastöðum, nr. 22 frá Lyngbrekku II, nr. 1058 frá Svarfhóli og nr. 23 frá Valþúfu.
Í flokki mislitra nr. 3639 frá Hallsstöðum, nr. 256 frá Klifmýri, nr. 85 frá Leiðólfsstöðum, nr. 117 frá Magnússkógum III og nr. 55 frá Stóra-Holti.
Auk þess var einn hrútanna er komst í úrslit boðinn upp. Lágmarksverð var 30.000 kr og endaði hann í 100.000 kr eftir æsispennandi uppboð milli fjárlausra Stranda- og Dalamanna. Og vantar nú tilfinnanlega fjárhúsbyggingu við Silfurtún.
Á morgun hefst dagskrá kl. 10 á lambhrútasýningu í Vesturlandshólfi. Þar eru skráðir 17 hyrndir hrútar, 10 kollóttir og 8 mislitir hrútar.
Eftir hádegi er dagskrá í reiðhöllinni í Búðardal; Íslandsmeistaramótið í rúningi, hönnunarsamkeppni FSD og Ístex, markaður, vélasýningar, ullarvinnsla og fleira.
Um kvöldið er síðan grillveisla og dansleikur í Dalabúð.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei