Hundahreinsun í Búðardal fer fram miðvikudaginn 17. desember nk. kl. 16-18 hjá dýralækni að Ægisbraut 19.
Hundahreinsun í dreifbýli fer fram samhliða garnaveikibólusetningu sauðfjár og annarri yfirferð dýralæknis. Hundaeigendur í dreifbýli sem ekki eiga sauðfé eru beðnir um láta Gísla Sverri Halldórsson dýrarlækni vita af þeim hundum svo hægt verði að meðhöndla þá í sömu ferð.
Samkvæmt samþykkt um hundahald í Dalabyggð sætir hundahald í Búðardal takmörkunum. Eigendum hunda í Búðardal er skylt að skrá hunda sína á skrifstofu Dalabyggðar. Við skráningu ber hundeiganda að sýna vátryggingarskírteini, vottorð dýralæknis um að hundurinn sé ekki haldinn smitandi sjúkdómi og hafi verið hreinsaður af bandormum, svo og öll þau skilríki sem máli skipta.
Lausaganga hunda er óheimil í Búðardal og ekki má fara með þá inn í skólahús, leikvelli, skrifstofur, stofnanir, samkomuhús, verslanir eða starfstöðvar þar sem úrvinnsla, meðferð eða geymsla matvæla á sér stað. Eigendum hunda ber að sjá um að hundar þeirra raski ekki ró manna eða verði mönnum til óþæginda. Þá er og skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.
Til að standa straum af kostnaði sveitarfélagsins við skráningu og eftirlit með hundum í Búðardal skulu hundeigendur greiða árlega gjald til sveitarsjóðs.