Fjárhagsáætlun 2013-2016 var til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar 30. október sl. Áætlunin hefur verið unnin í samvinnu við forstöðumenn deilda sveitarfélagsins og hefur verið rædd á fundi sveitarstjórnar 20. nóvember og á fundum byggðarráðs og nefnda.
Gert er ráð fyrir að rekstarniðurstaða verði jákvæð öll árin sem áætlunin nær yfir og að hlutfall skulda af árstekjum lækki úr u.þ.b. 74% fyrir árið 2012 í um 65% fyrir árið 2016.
Fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll útsvars, fasteignaskatts og lóðarleigu verði óbreytt frá fyrra ári sem og álagningarhlutföll í gjaldskrám fyrir holræsagjald og vatnsgjald. Þjónustugjöld hækka almennt sem nemur hækkun neysluverðsvísitölu og tekjumörk vegna afslátta elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti hækka sem nemur hækkun launavísitölu.
Gert er ráð fyrir að tekjur ársins 2013 verði um 5% hærri en áætlaðar tekjur árins 2012 en heildargjöld um 4% hærri.
Gert er ráð fyrir auknum framlögum til æskulýðs- og íþróttamála og til atvinnumála.
Gert er ráð fyrir aðhaldsaðgerðir á Silfurtúni fari að skila árangri og að rekstrarhalli verði innan við 5 millj.kr. Vonast er til að Velferðarráðuneytið komi til móts við óskir Dalabyggðar um framlög til að brúa þennan halla.
Gert er ráð fyrir að rekstur A-hluta með eignasjóði verði jákvæður um 6 millj. kr. á árinu 2013 og afgangur á rekstri samstæðu verði um 2,5 millj. kr.
Veltufé frá rekstri verður um 40 millj. kr. og afborganir langtímalána um 31 millj. kr. Gert er ráð fyrir nýjum lántökum sem nemur 20 millj. kr. til framkvæmda. Fjárfestingar nema um 47 millj. kr. og verða helstu framkvæmdir endurbætur á stjórnsýsluhúsi og Dalabúð, viðbygging við leikskóla og endurbætur á sundlaug við Dalabúð. Einnig er gert ráð fyrir endurbótum á fjárréttum og á byggingunum að Laugum svo eitthvað sé nefnt.
Gert er ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar Dalabyggðar í árslok 2013 nemi um 463 millj. kr. eða um 71% af tekjum.