Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar 13. janúar var fjallað um ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Dalabyggð.
Fyrir tæpu ári birti Póst- og fjarskiptastofnun umræðuskjal á heimasíðu sinni um framtíðarfyrirkomulag alþjónustu varðandi þá skyldu að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið.
Sveitarstjórn Dalabyggðar fjallaði um það skjal 15. apríl 2014 og sendi frá sér bókun um mikilvægi ljósleiðaravæðingar fyrir dreifbýli.
Bókun sveitarstjórnar 15. apríl 2014 send Póst- og fjarskiptastofnun, Rarik og fleirum
„Sveitarstjórn Dalabyggðar hvetur til þess að Póst og fjarskiptastofnun hefjist þegar í stað handa við gerð áætlunar um ljósleiðaravæðingu landsins alls. Miðað við fyrirliggjandi gögn ætti að vera raunhæft að tengja þá 1.700 staði/lögheimili sem liggja utan svokallaðra markaðssvæða á 5 árum. Sveitarstjórn telur að þessir staðir ættu að njóta forgangs fram yfir þéttbýlli svæði sem líkur eru til að fjarskiptafyrirtæki tengi á markaðsforsendum á næstu árum. Sveitarstjórn telur eðlilegt að sett verði kostnaðarhámörk á alþjónustuhafa, notenda og jöfnunarsjóð og að ekki sé gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga enda málaflokkurinn á forræði ríkisins.
Fyrir liggur að Rarik ohf. vinnur að því að koma dreifikerfi sínu í jörð og hvetur sveitarstjórn ríkisstofnanir og félög í ríkiseigu að taka höndum saman og leita hagkvæmra leiða til að koma fjarskipta og rafmagnsmálum dreifbýlisins í gott horf svo sem með því að sameinast um lagningu jarðstrengja.“
Dalabyggð mun á þessu ári með stuðningi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi láta vinna áætlun um ljósleiðaravæðingu Dalabyggðar.
Innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári starfshóp um alþjónustu í fjarskiptum og er Haraldur Benediktsson Alþingismaður formaður nefndarinnar.
Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar 13. janúar var sem oftar fjallað um ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Dalabyggð og gerð bókun um málið send formanni starfshópsins, öllum þingmönnum kjördæmisins og fleirum.
Bókun byggðarráðs 13. janúar 2015 send innanríkisráðuneyti, þingmönnum og fleirum
Innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári starfshóp um alþjónustu í fjarskiptum og er Haraldur Benediktsson Alþingismaður formaður nefndarinnar. Í umsögn varðandi umræðuskjal Póst- og fjarskiptastofnunar um framtíðarfyrirkomulag alþjónustu í apríl 2014 hvatti sveitarstjórn Dalabyggðar til þess að stofnunin hefjist þegar í stað handa við gerð áætlunar um ljósleiðaravæðingu landsins alls. Sveitarstjórn ályktaði að raunhæft ætti að vera að tengja þá 1.700 staði/lögheimili sem liggja utan svokallaðra markaðssvæða á 5 árum. Sveitarstjórn hvatti jafnframt til þess að ríkisstofnanir og félög í ríkiseigu taki höndum saman og leiti hagkvæmra leiða til að koma fjarskipta- og rafmagnsmálum dreifbýlisins í gott horf svo sem með því að sameinast um lagningu jarðstrengja.
Í áramótaávarpi forsætisráðherra kemur fram að á árinu 2015 verði hafist handa við átaksverkefni við að ljósleiðaravæða allt landið og að þetta sé eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins.
Byggðarráð Dalabyggðar fagnar orðum forsætisráðherra og minnir á bókun sveitarstjórnar frá apríl á síðasta ári. Dalabyggð mun á þessu ári með stuðningi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi láta vinna áætlun um ljósleiðaravæðingu Dalabyggðar.
Byggðarráð minnir á að Dalir hafa oft og einatt mætt afgangi í uppbyggingu dreifikerfa á landsvísu s.s varðandi lagningu jarðsíma og rafveitna á sínum tíma. Brýnt er að það sama verði ekki upp á teningnum varðandi uppbyggingu ljósleiðarakerfis enda liggur fyrir að byggðin í Dölum á mjög undir högg að sækja m.a. vegna lélegra fjarskipta.
Byggðarráð óskar eftir fundi með starfshópi um alþjónustu í fjarskiptum.“