Dalir og Hólar 2012

DalabyggðFréttir

Dalir og Hólar munu efna til sýninga á svæðinu Dalabyggð – Reykhólasveit sumarið 2012. Leitað er eftir hugmyndum og uppástungum um áhugaverða staði á svæðinu sem gætu virkað sem sýningarrými.
Myndlistamenn munu vinna út frá náttúru og menningu Dalabyggðar og Reykhólasveitar sem mynda umgjörð um sýninguna. Prentuð verður sýningarskrá sem jafnframt er leiðsögukort um svæðið. Viðfangsefni sýningarinnar að þessu sinni er hugtakið FERÐ.
Dönskum listamanni verið boðin þátttaka, Cai Ulrich von Platen. Von Platen er búsettur í Kaupmannahöfn og hefur hlotið margskonar opinberar viðurkenningu fyrir list sína, m.a. frá Statens Kunstfond. Að auki eru fjórir íslenskir listamenn; Ólafur Sveinn Gíslason, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir og Einar Garibaldi Eiríksson. Öll eru þau reyndir myndlistamenn sem tekið hafa þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis. Hafa verk þeirra gjarnan fjallað um ferðir og staði.
Í samráði við landeigendur og húsráðendur í Dölum og Reykhólasveit munu listamennirnir velja sér sýningarstað/svæði til þess að vinna með. Geta sýningarstaðirnir verið af ýmsum toga; tóm hús, húsarústir, hús í byggð, eyðibýli eða tiltekið svæði. Listamennirnir munu velja sér staðsetningu og sýna verk sín á fjórum til fimm mismunandi stöðum á svæðinu. en auk þess munu allir listamennirnir setja upp verk á annarri hæð í gamla skólahúsinu í Ólafsdal.
Sýningarstjórar eru þakklátir öllum þeim húsráðendum og landeigendum á svæðinu sem hafa boðið afnot af sýningarrými. Enn er hægt að koma á framfæri við sýningarstjóra nýjum hugmyndum og uppástungum um áhugaverða staði á svæðinu sem gætu virkað sem sýningarrými fyrir Dali og Hóla 2012.
Sýningarstjórar eru Sólveig Aðalsteinsdóttir (sími 692 1194) og Þóra Sigurðardóttir (sími 896 1930).
Menningarráð Vesturlands styrkir verkefnið.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei