Ársreikningur 2008

DalabyggðFréttir

Fyrri umræða um ársreikning Dalabyggðar og stofnana sveitarfélagsins fór fram í sveitarstjórn þann 4. júní sl.

Helstu niðurstöður:

Rekstur
A-hluti samstæðunnar var rekinn með 28,8 m.kr. rekstrarafgangi fyrir fjármagnsgjöld en þau voru 31,5 m.kr. á árinu. Niðurstaðan er því 2,7 m.kr. halli á A-hlutanum.

Rekstrartekjur Dalabyggðar á árinu 2008 af samstæðunni voru 589,8 m.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir 526 m.kr.
Rekstrartekjur A-hluta voru 493,3 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar voru 568,0 m.kr. og því var rekstrarniðurstaða samstæðunnar jákvæð fyrir fjármagnsgjöld um 21,8 m.kr.

Rekstur samstæðunnar var því neikvæður um 20,2 m.kr. á árinu 2008. Endurskoðuð fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir 28,4 m.kr. halla á rekstri samstæðunnar.

B-hluti
Vatnsveita: 5,3 m.kr. afgangur var á rekstri á árinu.

Fráveita: 1,1 m.kr. halli var á rekstrinum.

Silfurtún: 17,1 m.kr. halli var á rekstrinum en gert var ráð fyrir 10,1 m.kr. halla. Helstu skýringar liggja í 4,5% hækkun launakostnaðar og 28% hækkun annars rekstrarkostnaðar. Fjármagnsgjöld námu rúmlega 3,3 m.kr.

Félagslegar íbúðir: 4,6 m.kr. halli var á rekstrinum. Fjármagnsgjöld vógu þar þyngst en þau voru 7 m.kr.

Skuldir og skuldbindingar A og B hluta
Heildarskuldir og skuldbindingar samkvæmt efnahagsreikningi námu 335,6 m.kr. í árslok 2008 fyrir A og B hluta, samanborið við 327,1 m.kr. í árslok 2007. Breyting á milli ára er 2,6%. Lífeyrisskuldbinding hækkar um alls 25,9% á milli ára. Langtímaskuldir námu alls 208,6 m.kr. hjá A og B hluta. Skammtímaskuldir námu 79,5 m.kr. í árslok 2008 hjá A og B hluta samanborið við 63,2 m.kr. árið áður og nemur hækkunin alls 25,9% á milli ára. Gengistryggð lán námu samtals 19,0 m.kr. í árslok 2008.

Skuldir og skuldbindingar hækkuðu úr 327,1 m.kr. í 335,6 m.kr. á milli ára. Skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa eru 471,4 þús.kr. Handbært fé í ársbyrjun 2008 var 91,0 m.kr. en var 48,9 m.kr. í árslok. Veltufé frá rekstri var 46,2 m.kr. Fastafjármunir hækka úr 431,2 m.kr. í 455,5 m.kr.

Fjárfestingar
Brúttó fjárfestingar sveitarfélagsins námu 96,1 m.kr. og munar þar mestu um nýjan leikskóla en fjárfesting ársins vegna hans nam rúmlega 73,3 m.kr. Fjárfesting ársins vegna Leifssafns nam 6,3 m.kr. Ráðist var í viðhald í Tjarnarlundi fyrir 9 m.kr. Framlög jöfnunarsjóðs vegna leikskólabyggingar námu 16.5 m.kr. og framlag ríkisins vegna Leifssafns nam 20,0 m.kr. Nettó fjárfestingar ársins voru því 59,2 m.kr.
Afborganir langtímalána námu 50,8 m.kr. en engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2008.

Niðurstaða
Niðurstaða ársins er viðunandi miðað við árferði. Rekstur A-hlutans fyrir fjármagnsliði er jákvæður um tæpar 28,9 m.kr. og staða lána og samsetning þeirra er vel ásættanleg þó vissulega hafi gengismunur og vísitöluhækkanir haft talsverð áhrif á niðurstöðuna.

Hallarekstur ársins má fyrst og fremst rekja til eftirfarandi þátta:
a) Fjármagnsgjalda (gengismunar og verðbóta).
b) Hækkunar lífeyrisskuldbindingar.
c) Aukins rekstrarkostnaðar í kjölfar efnahagshrunsins.
d) Ófyrirséðra rekstrarútgjalda á skrifstofu sveitarfélagsins m.a. vegna ráðningar sveitarstjóra og bókara. Einnig voru ófyrirséð útgjöld eins og samningur við Nýsi, sem kostaði sveitarfélagið 4 m.kr., og kaup á minjagripum til endursölu fyrir um 1. m.kr.
e) Hallareksturs Silfurtúns.

Það er ljóst að sveitarfélagið verður að leita leiða til þess að jafna viðvarandi hallarekstur Silfurtúns. Jafnframt þarf að endurskoða alla rekstrarþætti sveitarfélagsins enda þjóðhagsspá sveitarfélaginu óhagstæð til næstu 2-3 ára. Gera má ráð fyrir allt að 13% samdrætti í tekjum úr jöfnunarsjóðs á árinu. Jöfnunarsjóður telur nær helming tekna Dalabyggðar á ársgrundvelli þannig samdráttur þar hefur umtalsvert að segja fyrir rekstur sveitarfélagsins. Endurskoðun fjárhagsáætlunar stendur yfir en við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar er sú stöðugt í gangi.

Virðingarfyllst,
Grímur Atlason, sveitarstjóri
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei