Björn Bjarki Þorsteinsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Dalabyggðar. Bjarki hefur starfað sem framkvæmdastjóri Brákarhlíðar, hjúkrunar- og dvalarheimilis í Borgarnesi síðastliðin 15 ár. Hann hefur setið í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu síðastliðin 10 ár, lengst af sem varaformaður og síðar formaður þar til í apríl s.l..
Bjarki hefur áralanga reynslu af sveitarstjórnarstörfum en hann sat í sveitarstjórn Borgarbyggðar frá 2002-2018, þar af sem forseti sveitarstjórnar í tvö kjörtímabil. Einnig hefur hann gegnt formennsku m.a. í byggðarráði og fræðslunefnd. Hann hefur setið í fjölda stjórna, ráða og nefnda og má þar nefna stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, Háskólans á Bifröst, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og er nú formaður stjórnar Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Bjarki hefur jafnframt verið virkur þátttakandi í íþrótta- og æskulýðsmálum og gegndi m.a. formennsku í körfuknattleiksdeild Skallagríms um árabil. Hann var annar af upphafsmönnum Sauðamessu á sínum tíma og einn stofnanda Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs.
Á árum áður starfaði Bjarki sem sölu- og markaðsstjóri hjá Borgarnes kjötvörum og við verslunar- og innkaupastjórnun hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, 11-11/Kaupás og Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík.
Bjarki lauk MBA námi frá Háskóla Íslands í júní síðastliðnum. Hann er giftur Guðrúnu Ólafsdóttur, sem starfar á Bifröst, og eiga þau fjögur uppkomin börn. Reiknað er með að Bjarki muni koma til starfa í ágúst n.k.
Sveitarstjórn Dalabyggðar býður Björn Bjarka velkominn til starfa.
Sveitarstjórn þakkar jafnframt þeim umsækjendum sem sóttu um stöðu sveitarstjóra þegar starfið var auglýst. Alls bárust 13 umsóknir og tveir umsækjendur drógu nafn sitt til baka.
Umsækjendur voru í stafrófsröð:
Ari Jóhann Sigurðsson – sérkennari
Barbara K. Kristjánsdóttir – mannauðs- og gæðastjóri
Glúmur Baldvinsson – eigin rekstur
Gunnsteinn Björnsson – sjálfstætt starfandi
Hróðmar Dofri Hermannsson – framkvæmdastjóri
Ingvi Már Guðnason – verkstjóri
Jón Eggert Guðmundsson – yfirmaður kerfismála
Konráð Gylfason – framkvæmdastjóri
Sigurður Sigurðarson – sjálfstætt starfandi
Viggó E. Viðarsson – flokksstjóri
Örn Haukur Magnússon – framkvæmdastjóri