Bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar vegna laxeldis í sjókvíum

SveitarstjóriFréttir

Sveitarstjórn Dalabyggðar bókaði svohljóðandi á 237. fundi sveitarstjórnar sem fram fór þann 14. september sl.

„Sveitarstjórn Dalabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að nú séu að veiðast eldislaxar í ám í sveitarfélaginu líkt og reyndin er víða í nágranna héruðum.

Íslenski laxastofninn, hreinleiki hans og orðspor er dýrmætt vörumerki sem mikilvægt er að standa vörð um. Í Dalabyggð eru einstakar laxveiðiár og sumar þeirra með þekktustu laxveiðiám landsins. Árnar og sú atvinna og tekjur sem þeim tengist og eru okkur í Dalabyggð dýrmætar.

Atvinnuuppbygging af ýmsu tagi er mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina en leikreglur verða að vera skýrar og þannig að sé ekki farið að settum lögum og reglum séu viðurlög sem skipta máli og þannig verði hvatinn meiri til að halda vel á málum. Eftirlit verður að vera með þeim hætti að öðrum búgreinum og atvinnuuppbyggingu stafi ekki hætta af né heldur umhverfi og lífríki.

Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar í taumana og setja skýrar reglur um fiskeldi og viðurlög því tengdu þannig að umhverfinu stafi ekki ógn af í framtíðinni. Mikilvægt er að atvinnulíf geti blómstrað um land allt án þess að lifa í ótta við slys líkt og þau sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum tengd laxeldi.“

Bókuninni hefur verið komið á framfæri við matvælaráðherra og þingmenn kjördæmisins.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei