Áskorun til stjórnar og stjórnenda Samkaupa frá sveitarstjórn Dalabyggðar

SveitarstjóriFréttir

Sveitarstjórn Dalabyggðar bókaði svohljóðandi áskorun til stjórnar Samkaupa á 237. fundi sveitarstjórnar sem fram fór þann 14. september sl.

„Við í Dalabyggð erum að leita allra leiða til að efla samfélagið okkar og innviði til hagsældar fyrir íbúa og aðra. Í ákveðnum efnum hefur nokkuð áunnist en hvað dagvöruverslun varðar, sem býður upp á helstu nauðsynjar til heimilisreksturs, þá stöndum við mjög höllum fæti.
Árið 2020 breytti Samkaup verslun sinni í Búðardal úr Kjörbúð yfir í Krambúðina. Heimamenn í Dalabyggð mótmæltu þessari breytingu en engu tauti varð því miður komið við þáverandi stjórnendur Samkaupa.

Sóknarmöguleikar varðandi rekstur dagvöruverslunar í Búðardal eru mjög miklir sé horft til þess að íbúar í Dalabyggð, Reykhólasveit og af Ströndum sækja sér allar helstu nauðsynjar dagvöruverslunar út fyrir svæðið, helst í Borgarnes og gera þar magninnkaup. Með tilliti til allra þeirra sjónarmiða sem uppi eru í nútímasamfélagi er þessi nálgun Samkaupa óásættanleg, m.t.t. umhverfissjónarmiða og sjálfbærni svo eitthvað sé nefnt. Búðardalur er þannig í sveit settur að landsbyggðarfyrirtæki eins og Samkaup, með bakland í kaupfélögunum á hverju starfssvæði, á að sjá tækifærin í því að færa vöruna nær viðskiptavinum sínum á ásættanlegum kjörum og stuðla þar með að minnkandi umferð um misgóða vegi á landsbyggðinni og gera þannig betur við sína viðskiptavini í sínu nærumhverfi.

Dalirnir eru magnað svæði, vinalegt samfélag í sókn en ýmsa þætti innviða þarf að efla og þar skiptir dagvöruverslun, vöruframboð og verðlag miklu máli.

Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á stjórn og stjórnendur Samkaupa að taka málið upp og endurmeta hvaða tegund af verslun félagið bjóði upp á í Dalabyggð, öllum til hagsbóta.“

Áskoruninni hefur verið komið á frafæri við stjórn og stjórnendur Samkaupa.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei