Nú dregur til tíðinda í uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar.
Framkvæmdir næstu vikna munu m.a. verða til þess að bílastæðum við Stjórnsýsluhúsið fækkar tímabundið og vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát nærri vinnusvæðinu.
Staða framkvæmda
Platan fyrir íþróttasalinn var steypt í síðustu viku í blíðskaparveðri. Unnið er að lagnavinnu og fyllingu í sökkla í þjónustubyggingu og járnabindingu plötu yfir kjallara. Steypuvinnu við bygginguna mun því ljúka fyrir lok mánaðar.

Steypuvinna við plötu íþróttarsalar.
Í vikunni koma fleti með límtrésbitum fyrir burðarvirkið. Húsið mun byrja að taka á sig mynd eftir nokkra daga þegar uppsetningargengið frá Lettlandi byrjar að reisa þann hluta hússins sem geyma mun tilvonandi íþróttasal.
Færri bílastæði og umferð nærri vinnusvæði
Vinna við reisningu og klæðningu miðstöðvarinnar mun taka nokkrar vikur. Vegna takmarkaðs geymslusvæðis við verkstað verður bílastæðið við Stjórnsýsluhúsið því nýtt sem lagersvæði. Um er að ræða stæði milli Stjórnsýsluhúss og Slökkviliðsstöðvar sem verða girt af frá og með morgundeginum. Bílastæði við húsið verða því takmörkuð, bendum þjónustuþegum og gestum á önnur bílastæði í grennd um leið og við tökum fram að ekki er leyfilegt að leggja fyrir framan húsnæði slökkviliðs. Eins er íbúum og vegfarendum, bæði gangandi og akandi bent á að sína aðgát og tillitsemi meðan unnið er við flutning á efni af lagersvæðinu inn á vinnusvæðið.