Nú í lok árs er rétt að líta yfir farinn veg eftir fyrsta starfsár DalaAuðs. Ýmislegt hefur unnist á þessum mánuðum síðan verkefnið hófst og er einstaklega ánægjulegt að sjá hve mikill kraftur er í íbúum Dalabyggðar. Metfjöldi umsókna bárust í fyrstu úthlutun Frumkvæðissjóðsins og voru verkefnin hvert öðru áhugaverðara. Stefnt er að því að næsta úthlutun verði á vormánuðum 2023.
Auk þeirra frumkvæðisverkefna sem fengu styrk eru ýmis önnur nýsköpun í gangi hér í Dalabyggð. Glæsilegur jólamarkaður var haldinn í Árbliki þar sem það kom bersýnilega í ljós að hér er gróska í handverki, ekki síst matarhandverki. Ég tel að þarna sé að finna einn af styrkleikum Dalabyggðar enda svæðið matarkista með ríka menningarsögu og því við hæfi að hér sé sköpunargleði bæði í handverki og mat. Ég hvet þau sem eru að feta þessa braut eindregið áfram. Þetta eykur fjölbreytileika í úrvali á vöru, sem bæði nýtist heimafólki og ferðamönnum.
Nýsköpunarsetur Dalabyggðar er að taka á sig mynd en það er til húsa þar sem Sýslumannsembættið var áður. Starfsfólk stjórnsýsluhússins hefur unnið að endurbótum á hæðinni og þar er nú fyrirmyndar skrifstofurými þar sem hægt er að leigja vinnuborð, ásamt því að þar er góð aðstaða fyrir minni fræðsluerindi, námskeið og fundi.
Í haust hefur einmitt verið þéttskipuð fræðsludagskrá í Nýsköpunarsetrinu og verða áframhaldandi viðburðir og reglulegt kaffispjall þar eftir áramót. Dalabyggð hefur staðið að þessum viðburðum, í samstarfi við DalaAuð, og hafa þeir verið mjög áhugaverðir og skemmtilegir. Hvet ég ykkur til að kíkja við í kaffibolla, taka spjallið, fræðast og miðla reynslu á þessum viðburðum á nýju ári. Varðandi Nýsköpunarsetrið þá hefur einnig verið stofnað ráðgjafarráð Nýsköpunarsetursins en markmið þess er að veita frumkvöðlum ráðgjöf og stuðning. Þeir sem ganga með hugmynd í maganum geta því haft samband við verkefnisstjóra DalaAuðs og fengið fund með ráðinu. Þessi nýjung er liður í því að styðja einstaklinga til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.
Fræðsludagskráin er eitt af mörgum dæmum um gott samstarf við starfsfólk sveitarfélagsins, sveitarstjórn og sveitarstjóra á árinu og eiga þau öll þakkir og hrós skilið. Þau hafa tekið skilaboðin frá íbúðaþingi og unnið að því að innleiða margt af því sem þar kom fram, inn í starf og stefnur sveitarfélagsins. Lögð hefur verið áhersla á uppbyggingu og hefur sveitarstjórn Dalabyggðar unnið ötult að því að vekja áhuga á lóðum og gengið til viðræðna við verktaka um mögulega uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Búðardal, ásamt því að undirritað var samkomulag um vilyrði fyrir stofnframlagi til almennra íbúða fram í tímann. Virðist því vera að rofa aðeins til í húsnæðismálum, sem hafa verið einn af þeim þáttum sem lá hvað mest á að bæta í byggðarlaginu.
Metár virðist hafa verið í komu gesta hjá ferðaþjónustuaðilum og liggja þar mikil tækifæri. Laugar eru komnar í hendur á nýjum eigendum og verður spennandi að fylgjast með þessari perlu Dalanna í framtíðinni. Það er okkar að vekja athygli á því sem hér er að sjá og upplifa, benda á Vínlandssetrið, Eiríksstaði, Ólafsdal og Skraumu svo fáein dæmi séu nefnd. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa kortlagt gönguleiðir í Dölum og er unnið að því að koma þeim á stafrænt form. Þá hafa einkaaðilar tekið að sér að byggja upp gönguleiðir á næstu misserum, bæði skógarstíga sem og stikun gönguleiðar milli Skarðsstrandar og Fellsstrandar sem unnið verður að á nýju ári. Það er því að aukast framboð af útivistarmöguleikum í Dalabyggð.
Félagslífið blómstrar einnig í Dalabyggð. Rekstraraðilar Árbliks eiga þakkir skilið enda hafa þær unnið að því að vera með reglulega og fjölbreytta viðburði í haust. Leikfélagið stefnir á að setja upp sýningu á nýju ári og verið er að vinna að því að koma á fót blönduðum kór í Búðardal. Mín reynsla er sú að það vantar alltaf í karlaraddirnar og biðla ég því til áhugasamra bassa og tenóra að vera ekki feimnir og láta ljós sitt skína! Íþróttastarf barna og ungmenna á svæðinu er glæsilegt og ekki annað að sjá en að krakkarnir njóti sín vel á æfingum. Frístundabíll hefur verið tekinn í notkun til að brúa bilið þar til nýtt íþróttahús rís í Búðardal og hefur það haft jákvæð áhrif á aðsókn í frístundarstarfið.
Haldin hafa verið ókeypis námskeið á vegum Símenntunarmiðstöð Vesturlands fyrir 60 ára og eldri, bæði í tölvulæsi og í slökun og Ungmennafélagið Ólafur Pá hefur staðið fyrir vikulegum æfingum fyrir eldri borgara. Mikið var kallað eftir því að sjúkraþjálfun yrði í boði í Dalabyggð og hafa þeir einstaklingar sem standa að ungmennafélaginu unnið merkilegt sjálfboðaliðastarf til að það geti orðið að veruleika. Það styttist því í það að fjölnota aðstaða verði tekin í gagnið, sem getur hýst sjúkraþjálfara, nuddara, iðjuþjálfa o.fl., í húsnæði Ungmennafélagsins.
Ég held að það sé óhætt að segja að kjarni verkefnisins hafi komist til skila til íbúa og að það sé að skila sér tilbaka. DalaAuður er nefnilega ekki utanaðkomandi afl sem kemur og bjargar okkur – við erum DalaAuður. Auðlindir Dalanna og mannauður er það sem við getum virkjað til að efla samfélagið sem við búum í. Framtíðin er björt og ég hlakka til næsta árs, fá að taka þátt og verða vitni að allri þeirri sköpun, krafti og gleði sem framundan er.
Með kærri nýjárskveðju,
Linda Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri DalaAuðs.